Hlutfall kvenna aldrei verið hærra

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hlutfall kvenna hefur aldrei verið hærra í sveitarstjórnum en það er á þessu kjörtímabili. Konur eru 47,2 prósent kjörinna fulltrúa en hlutfallið var 44 prósent á síðasta kjörtímabili. Í stærstu sveitarfélögunum, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Akureyri og Garðabæ, eru konur í meirihluta, en hlutfall þeirra er 55 prósent í stærstu sveitarfélögunum.

Þetta kemur fram í gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í sveitarstjórnarkosningunum fór fram óbundið persónukjör í 16 sveitarfélögum, í einu sveitarfélagi var sjálfkjörið þar sem aðeins einn listi kom fram, en í 55 sveitarfélögum fór fram hlutbundin listakosning.

Samtals eru kjörnir sveitarstjórnarmenn 502 og hefur þeim fækkað um tvo frá kosningunum 2010. Þessi fækkun sveitarstjórnarmanna stafar af sameiningu sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðisbæjar annars vegar og Breiðdalshrepps og Fjarðarbyggðar hins vegar. Á sama tíma fjölgaði borgarfulltrúum í Reykjavík úr 15 í 23. 

Hlutfall nýrra sveitarstjórnarmanna er 58,4 prósent en það er umtalsvert hærra en 2014 þegar hlutfallið var 54,4 prósent. Þar er einungis horft til þess hvort þeir hafi verið sitjandi sveitarstjórnarmenn í sama sveitarfélagi á síðasta kjörtímabili. Hafi þeir verið varamenn eða fært sig á milli sveitarfélaga teljast þeir nýir.

Í sveitarstjórnarkosningunum fór fram óbundið persónukjör í 16 sveitarfélögum, í einu sveitarfélagi var sjálfkjörið þar sem aðeins einn listi kom fram, en í 55 sveitarfélögum fór fram hlutbundin listakosning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert