„Við höfum ekki undan“

Halldór Einarsson og smstarfsmenn hans í Henson eru komnir í …
Halldór Einarsson og smstarfsmenn hans í Henson eru komnir í rétta gírinn fyrir fyrsta leik á HM. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil og jöfn sala hefur verið á varningi tengdum íslenska karlalandsliðinu í fótbolta að undanförnu. Fyrsti leikur liðsins á HM í Rússlandi er á laugardag og ljóst virðist að landsmenn ætla að vera vel með á nótunum í stuðningi sínum. Athygli vekur að alls kyns varningur er nú auglýstur til sölu; allt frá treyjum yfir í veifur, fána, bindi og slaufur.

„Salan hefur aldrei verið eins góð á þessum treyjum. Við höfum ekki undan að fylla á standana og erum núna með treyjuna bak við afgreiðslukassana til að flýta fyrir,“ segir Ingvi Brynjar Sveinsson, verslunarstjóri í Útilífi í Kringlunni. Opinbera landsliðstreyjan frá Errea hefur selst afar vel nú síðustu dagana fyrir mót. Ætla má að salan nemi vel á annan tug þúsunda þó að ekkert fáist staðfest í þeim efnum.

Ingvi segir að töluvert meira seljist nú en fyrir EM í Frakklandi fyrir tveimur árum. „Þetta er eitthvað um tvöfalt meiri sala núna. Fyrstu dagana var 70% meiri sala en á sama tíma fyrir tveimur árum. Við gerðum stóra forpöntun og héldum kannski að hún myndi duga en höfum þurft að leggja inn tvær pantanir í viðbót,“ segir hann.

Aðspurður segir hann að minnstu barnastærðirnar hafi selst upp en von sé á nýrri sendingu fyrir mótið. Þá hafa kvennatreyjurnar ekki verið fáanlegar síðustu fjórar vikur en sömuleiðis er von á sendingu með þeim. „Kvennalandsliðið byrjar ekki að spila í þeim fyrr en í haust og það var held ég ekki tekin ákvörðun fyrr en í maí að setja þær í framleiðslu. Þeir bjuggust kannski ekki við því að það væri svona mikill áhugi á þeim meðal stuðningsmanna.“

„Mér sýnist að stemningin sé að byggjast ótrúlega hratt upp síðustu dagana fyrir mót. Fólk er að átta sig á því hvað þetta er gríðarlega stór atburður. Þetta verður jákvæðasta landkynning sem Ísland hefur nokkru sinni fengið. Hún toppar leiðtogafundinn og er jákvæðari en Eyjafjallajökulsgosið. Salan hjá okkur hefur verið eftir því mjög góð,“ segir Halldór Einarsson, íþróttavöruframleiðandi í Henson.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert