Hljómskálagarðurinn klár fyrir leikinn

Frá uppsetningu risaskjásins í dag.
Frá uppsetningu risaskjásins í dag. mbl.is/Þór

„Það er allt á áætlun og við höfum góðan tíma á morgun líka,“ segir Gunnar Lár Gunnarsson hjá Manhattan Events sem sér um HM-torgið í Hljómskálagarðinum. Þar er nú unnið að því að gera allt klárt fyrir sýningu leiks Íslands gegn Argentínu á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fram fer á morgun.

Í Hljómskálagarðinum verður leiknum varpað á risaskjá, en Daði Freyr og Tólfan munu hita upp fyrir leikinn, auk þess sem stefnt er að því að sýna upphitun RÚV. Á svæðinu verða einnig hoppukastalar, fótboltavöllur og nokkrir veitingavagnar, en Reykjavíkurborg hefur veitt Prikinu leyfi fyrir sölu áfengis í Hljómskálagarðinum vegna leikja Íslands sem þar verða sýndir.

Gunnar telur hvorki að vínveitingaleyfið muni trekkja sérstaklega að né fæla fólk, svo sem fjölskyldufólk, frá. Hann segir ólíklegt að fólk eigi eftir að verða þess vart að sala áfengis fari fram í garðinum, enda fari hún fram í lokuðu tjaldi og að þar verði spurt um skilríki. Þá bendir hann á að þegar sýnt var frá Evrópumótinu á Ingólfstorgi hafi fólk komið með eigin veigar og að það muni líklega verða gert aftur. „Fólk er ekki að koma hingað sérstaklega til þess að drekka bjór. Þetta er bara ákveðin þjónusta sem fólki finnst orðin sjálfsögð.“

„Það er ómögulegt að segja,“ segir Gunnar aðspurður um áætlaðan fjölda fólks sem muni sækja Hljómskálagarðinn til þess að horfa á leikinn á morgun. „Það voru 3.500 til 4.500 manns á fyrsta leik á Ingólfstorgi 2016 en svo stækkaði það og varð of lítið. Á Arnarhóli voru þetta orðnir 20.000 manns plús.“

Gunnar segir að auðveldlega eigi að vera hægt að koma 10 til 15.000 manns fyrir í Hljómskálagarðinum. „Við hvetjum  alla sem vilja upplifa HM stemninguna til að koma hingað og taka þátt í fjörinu.“

Prikið hefur fengið leyfi til þess að selja áfengi í …
Prikið hefur fengið leyfi til þess að selja áfengi í Hljómskálagarðinum. mbl.is/Þór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert