Auðvelt að klæða úrkomuna af sér

Feðgarnir Gylfi Viðar Guðmundsson og Ingi Gunnar Gylfason með stuðningsmanni …
Feðgarnir Gylfi Viðar Guðmundsson og Ingi Gunnar Gylfason með stuðningsmanni Kólumbíu í miðborg Moskvu í gær. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Það verður að mestu hæg norðaustlæg átt í dag og skúrir um allt land með hæsta hita upp í 12 stig þegar best lætur. Skúrir myndast í óstöðugu lofti og getur verið erfitt að staðsetja og tímasetja þá nákvæmlega. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir ennfremur, að veðurlíkön gefi til kynna að lítið úrkomudrag verði nálægt höfuðborginni um hádegisbil þegar landsleikur Íslands verður sýndur, en þó líklega ekki mikil úrkoma og að öllum líkindum auðvelt að klæða hana af sér.

Annars staðar á landinu er sömu sögu að segja, það eru líkur á skúrum víða.

Á morgun, þjóðhátíðardag Íslendinga, er útlit fyrir austlæga átt og áframhaldandi skúraleiðingar um sunnanvert landið, en úrkomulítið framan af fyrir norðan. Þegar líður á daginn eru þó líkur á vætu um landið norðanvert. Síðdegis er lægð úr suðri spáð nokkuð nálægt landi og bætir í vind og úrkomu um landið suðaustanvert. Einnig er útlit fyrir aukna úrkomu á Austfjörðum annað kvöld.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert