Valgeir og víkingaklapp í Ósló

Ómar Diðriksson, Valgeir Guðjónsson og Hjörleifur Valsson fiðluleikari héldu uppi …
Ómar Diðriksson, Valgeir Guðjónsson og Hjörleifur Valsson fiðluleikari héldu uppi magnaðri stemmningu á Tordenskiold. mbl.is/Atli Steinn

Fjöldi Íslendinga er nú saman kominn á og við öldurhúsið Tordenskiold í miðbæ Óslóar og er hitað upp af lífi og sál fyrir leik Íslands og Argentínu en dagskrá hófst stundvíslega klukkan 12:00, 10 að íslenskum tíma, með tónleikum trúbadorsins og hárgreiðslumeistarans Ómars Diðrikssonar sem er Íslendingum í Ósló löngu kunnur og er skemmst að minnast meðal annars frammistöðu þeirra Rúnars Þórs Guðmundssonar 17. júní í fyrra þar sem rammíslensk þjóð- og dægurlagatónlist var leikin við slík fagnaðarlæti að þakið ætlaði af The Scotsman sem hýsti samkomuna. 

Valgeir Guðjónsson Stuðmaður er staddur í bænum, eins og mbl.is greindi frá í gær í umfjöllun um „Með allt á hreinu á SALT – Íslenskir sumardagar“, hátíð íslenska sendiráðsins í Ósló, Íslandsstofu og Íslendingafélagsins í Ósló í tilefni af fullveldisafmæli, 17. júní og HM. 

Hermann Hreiðarsson er álitsgjafi NRK fyrir leikinn. Í miðjunni er …
Hermann Hreiðarsson er álitsgjafi NRK fyrir leikinn. Í miðjunni er Hermann Ingólfsson, sendiherra Íslands í Noregi, og svo Valgeir Guðjónsson, sendiherra Stuðmanna. mbl.is/Atli Steinn

Valgeir steig á svið í upphitunarteitinni á Tordenskiold nú fyrir skömmu og lék þar á als oddi, flutti vel valin Stuðmannalög, fór með gamanmál og gerði sitt til að stuðla að þeirri mjög góðu stemmningu sem ríkir á svæðinu.

Í vandræðum með að þýða Með allt á hreinu

„Þetta er bara búið að vera alveg ótrúlega gaman og gott að koma hingað úr rigningunni í Reykjavík,“ sagði Valgeir í spjalli við mbl.is. „Við sýndum hérna Með allt á hreinu í gær fyrir fullu tjaldi og ég fór svo í viðtal um myndina við [norska ríkisútvarpið] NRK. Þá bjó ég nú að því að tala dálitla norsku eftir að hafa verið hér í Ósló í námi í félagsráðgjöf 1978 til '81. Ég lenti nú í smá bobba í því viðtali þegar ég var beðinn um að þýða titil myndarinnar á norsku. Mér datt ekkert annað í hug en Klærne er vasket [Fötin eru þvegin] og þeir skildu það alveg,“ sagði Stuðmaðurinn og skellihló en hann er svo á leið beint upp í vél til Íslands vegna Stuðmannatónleika á Íslandi 17. júní.

Að sjálfsögðu var víkingaklappið tekið.
Að sjálfsögðu var víkingaklappið tekið. mbl.is/Atli Steinn

Knattspyrnugoðið Hermann Hreiðarsson var einnig á staðnum og lét vel af sér: „Já, ég er álitsgjafi NRK fyrir leikinn og ætla að reyna að ljúga ekki of miklu að þeim,“ sagði Hermann við mbl.is og brosti í kampinn. „Ég er að þjálfa á Indlandi núna og er á leið þangað aftur en síðast þegar ég var hér [í Noregi] var það þegar Ísland-England leikurinn var og allir vita hvernig hann fór svo ég vona að það boði gott að ég sé hérna núna,“ sagði Hermann að skilnaði.

Varla fara margar upphitunarhátíðir Íslendinga fyrir viðburðinn í dag fram án þess að menn öskri þar „HÚH!“ og klappi höndum saman í hinu rómaða víkingaklappi sem nú er löngu heimsþekkt. Norska sjónvarpsstöðin TV2 vildi ekki fyrir nokkra muni missa af klappinu sem tekið var af innlifun núna klukkan tvö að staðartíma, eftir vel heppnaða æfingu hálftíma áður, og mætti tökulið frá henni á staðinn og fylgdist með atganginum. Þeir sjónvarpsmenn urðu ekki fyrir vonbrigðum því fullur bar af Íslendingum, undir stjórn Ómars Diðrikssonar, ærðist í klappinu og munu þau fagnaðarlæti lengi uppi verða meðal norskra barþjóna sem vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið.

Allir gestir á Tordenskiold eru þó sammála um eitt: Áfram Ísland!

mbl.is/Atli Steinn
mbl.is/Atli Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert