Berdreymin kona vann 36 milljónir í lottó

Það getur borgar sig að dreyma milljónirnar.
Það getur borgar sig að dreyma milljónirnar.

Konu á besta aldri sem hafði lottað fyrir síðasta laugardag dreymdi um helgina að hún hefði unnið stóra vinninginn. Hún ákvað því að fara á sölustað í vikunni til að láta skoða miðann. Þar fékk hún hins vegar þau svör að ekki væri hægt að greiða vinninginn á staðnum þar sem upphæðin væri of há.

Konan hefur áður fengið vinning upp á rúmlega 30 þúsund krónur og hélt að um svipaða upphæð væri að ræða. Hún varð því verulega hissa þegar starfsmenn Íslenskrar getspár heilsuðu henni innilega og buðu henni að koma inn fyrir. Þar var henni tjáð að hún hefði unnið 36 milljónir króna, en tveir skiptu með sér fyrsta vinningi í lottóútdrættinum síðasta laugardag.

Í tilkynningu frá Íslenskri getspá segir að við fregnirnar hafi konan fellt tár, þvílík var undrun hennar og gleði þegar hún var búin að meðtaka tíðindin. Konan var stödd á Flúðum um síðustu helgi þar sem hún keypti lottómiðann, en hún er búsett á höfuðborgarsvæðinu. Það má því með sanni segja að konan sé berdreymin og hafi notið góðs af. 

Alls hlutu rúmlega 10.700 vinningi í útdrættinum á laugardag. Lottópotturinn á morgun verður einfaldur og stefnir í sjö milljónir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert