Tæknin stríddi í Laugardalnum

Frá hátíðinni í fyrra.
Frá hátíðinni í fyrra. mbl.is/Hanna

Tónlistarhátíðin Secret Solstice hófst í rigningunni í Laugardal í gærkvöld með tónlistaratriðum frá Sylvíu Erlu, Reykjavíkurdætrum, Steve Aoki, Jet Black Joe og goðsögninni Bonnie Tyler. Talsverð óánægja myndaðist á meðal fjölmiðlafólks en erfiðlega gekk að afhenda því armbönd sín og misstu margir, innlendir sem erlendir, af fyrstu atriðum kvöldsins vegna tafa.

Að sögn Bjarnar Teitssonar, fjölmiðlafulltrúa hátíðarinnar, var það tæknin sem stríddi tónleikahöldurum. Í ár er í fyrsta sinn sem hátíðin notast við armbönd með rafrænum kubbum, en með þeim þarf fólk meðal annars að greiða fyrir veitingar á svæðinu.

Almennir tónleikagestir lentu ekki í sömu vandræðum og fjölmiðlar en Björn segir hátíðarhaldara harma uppákomuna. Sumir þeirra sem voru í röðinni ásamt blaðamanni mbl.is þurftu að bíða í hátt í tvær klukkustundir og einhverjir gáfust upp á biðinni. „Þetta hefði ekki átt að vera jafn mikið vandamál og þetta varð. Fólk var beðið um að koma með útprentaðan tölvupóst eða staðfestingu í síma. Um leið og það verða tafir á að afgreiða einhvern einn myndast mikið álag og þetta vindur upp á sig eins og snjóbolti.“

Björn segir atvikið til þess að læra af þessu og að eina sem hægt sé að gera sé að bæta sig og bæta upplifun fyrir alla hátíðargesti. Verður þetta tekið fyrir á fundi hjá hátíðarhöldurum í dag.

Rúmlega sextíu prósent allra tónleikagesta mættu á svæðið í gærkvöldi, sem Björn segir að sé svipað hlutfall og mætt hafa á fyrsta tónleikakvöld undanfarin ár. Álagið ætti því að vera mun minna í dag og segir Björn að á fyrsta kvöldi hátíðarinnar hafi allt gengið eins og það átti að gera fyrir utan tafirnar.

Almennir tónleikagestir í röð inn á svæðið í gærkvöld.
Almennir tónleikagestir í röð inn á svæðið í gærkvöld. mbl.is/Valli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert