Girtu sig af frá ferðamönnum á Látrabjargi

Ljósmynd/Náttúrustofa Norðausturlands

„Þeir hafa verið alveg ofan í okkur svo við brugðum á það ráð að girða í kring um okkur þetta árið,“ segir Þorkell Lindberg Þórarinsson hjá Náttúrustofu Norðausturlands. Við rannsóknir þeirra á bjargfuglum undanfarin ár hefur ágangur túrista í Látrabjargi sífellt aukist og hafa þeir truflað störf og jafnvel skapað hættu.

„Við erum búin að vera að rannsaka bjargfugla í nokkur ár og reyna að finna hvar þeir halda sig utan varptímans, við kortleggjum ferðir þeirra og dreifingu á þeim tíma. Við förum þess vegna í þessi björg, meðal annars Látrabjarg, og veiðum fuglana og setjum á þá sérstök tæki sem skrá niður staðsetningu fuglanna,“ segir Þorkell, en áhugasamir geta lesið nánar um verkefnið hér.

„Svo þurfum við að ná þeim árið eftir til þess að ná tækjunum af þeim og lesa hvar þeir hafa haldið sig. Þá skiptum við og setjum ný tæki í staðinn. Það var það sem við vorum að gera þarna.“

Ljósmynd/Náttúrustofa Norðausturlands

Þorkell segir að þeir hafi verið eins og dýr í dýragarði. „Þetta var svolítið skondið, þeir voru að tala um okkur eins og við heyrðum ekki í þeim. Velta fyrir sér hvað við værum að gera.“

„Stundum hafa þeir verið einum of, það hefur ágerst undanfarin ár að þeir hafa verið alveg ofan í okkur og truflað okkar við vinnu okkar þarna úti á björgunum. Þeir þvælast fyrir öryggislínunum og svoleiðis sem manni er ekkert sérstaklega vel við á svona stöðum.“

Eins og sjá má á myndunum virkuðu hestagirðingarnar og öryggisborðarnir úr Húsasmiðjunni vel við að halda ferðamönnunum í skefjum. „Við munum örugglega gera þetta aftur á næsta ári,“ segir Þorkell að lokum.

mbl.is