Kominn heim og með íslenskt nafn

Pus er bröndóttur eins og þessi köttur.
Pus er bröndóttur eins og þessi köttur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Köttur sem fór í gámi frá Álasundi í Noregi til Íslands er kominn í faðm eigenda sinna á ný. Hann hefur nú fengið nýtt nafn: Snorri.

Kötturinn laumaði sér inn í gám íslenskrar fjölskyldu í bænum sem var að flytja til Íslands á ný. Það var svo ekki fyrr en gámurinn var opnaður á Íslandi að upp komst um málið en þá hafði eigandi hans auglýst eftir honum í Álasundi.

Kötturinn Snorri virðist mjög svo sáttur við að vera kominn heim til þeirra Frank Martin og Grete Hove, eins og sjá má á myndum sem fylgja frétt TV 2 af endurfundunum.

Kisi hét áður Pus en hann týndist 9. júní og gerði eigandinn dauðaleit að honum. Sagðist Hove hafa verið orðin sannfærð um að hann hefði drepist. Það var svo ekki fyrr en 27. júní að gámurinn með búslóð íslensku fjölskyldunnar var opnaður á Íslandi og sannleikurinn kom í ljós. Kisi var þá mjög horaður og hálfhárlaus.

„Okkur fannst það stórundarlegt að svona lítil vera gæti lifað tvær og hálfa viku án matar og drykkjar og við höldum að hann hefði ekki getað lifað mikið lengur,“ segir Hove í samtali við TV 2.

Pus (eða Snorra!) var komið í hendur dýralækna á Íslandi og í gærkvöldi var honum svo flogið frá Íslandi til Óslóar. „Það var gott að fá hann heim,“ segir Frank Martin sem tók á móti kettinum á flugvellinum. Seint í gærkvöldi var fjölskyldan svo sameinuð á ný í Álasundi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert