Katrín mun ræða friðsælar lausnir á leiðtogafundi NATO

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sækir leiðtogafund NATO og mun leggja áherslu …
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sækir leiðtogafund NATO og mun leggja áherslu á friðsælar lausnir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við munum fylgja okkar utanríkisstefnu og tala fyrir friðsælum lausnum eins og við gerum ávallt,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í samtali við blaðamann mbl.is, en hún er á leið á leiðtogafund NATO sem hefst á morgun í nýjum höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel í Belgíu. Hún telur óvissu líklega til þess að setja svip sinn á fundinn.

Katrín segist ekki ætla að ræða um öryggis- og varnarmál aðeins í hernaðarlegum skilningi, heldur leggja áherslu á blandaðar ógnir, svo sem loftslagsmál, netöryggismál og önnur sambærileg mál sem sýna hið breytta umhverfi sem ríki búa við. „Við munum nálgast þessum öryggis- og varnarmálum með breiðari skírskotun á útfrá okkar sérstöðu,“ segir hún.

„Ég mun sömuleiðis eiga fund með ICAN-samtökunum [alþjóðleg samtök sem berjast fyrir eyðingu kjarnorkuvopna], sem fengu friðarverðlaunin í fyrra, og á þeim fundi bjóða þeim að koma hingað til okkar í október þar sem Ísland mun hýsa afvopnunarráðstefnu NATO.“

Nýjar höfuðstöðvar NATO í Brussel.
Nýjar höfuðstöðvar NATO í Brussel. Ljósmynd/NATÓ

Krefjast aukinna framlaga

Um helstu umræðuefni fundarins segir Katrín að fundurinn mun vafalaust snúast í einhverjum mæli um kröfur um aukin framlög annarra ríkja til varnarmála. Hún segir einnig mikla óvissu og miklar hræringar innan margra aðildarríkja líklegt til þess að setja svip sinn á fundinn.

Forsætisráðherra segist ekki telja líklegt að kröfum um aukin framlög til varnarmála verði beint að Íslandi. „Okkar sérstaða sem herlaust ríki hefur alltaf verið viðurkennd innan Atlantshafsbandalagsins, þannig að það hefur ekki verið gerð krafa um þessi 2% [af landsframleiðslu til varnarmála] til okkar. Hins vegar hefur Ísland verið að verja auknum framlögum til ýmissa þátta sem lúta að vörnum landsins og þá í gegnum borgaraleg verkefni.“

Samkvæmt tilkynningu NATO mun fundurinn einnig snúa að bættu öryggi innan Evrópu og í nágrenni þess, auknu samstarfi við Evrópusambandið, nútímavæðingu bandalagsins og að tryggja réttlátari skiptingu byrða. Þá munu leiðtogar aðildarríkja NATO funda um aðgerðir bandalagsins í Afganistan.

Með í för þjóðarleiðtoga á fundinn verða einnig utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar bandalagsþjóðanna og munu þeir einnig funda sín á milli á leiðtogafundi NATO.

Enginn tvíhliðafundur með Trump

Fulltrúar Úkraínu og Georgíu verða sérstakir gestir fundarins samkvæmt dagskrá. Spurð um stöðu mála í Austur-Evrópu segir Katrín að ekki sé stefnt að sérstakri stefnubreytingu hvað Rússland varðar, en segir jafnframt að íslensk stjórnvöld hafi „lagt áherslu á þetta pólitíska samtal við Rússa, sem er auðvitað mjög mikilvægt.“

Í þessu samhengi bendir forsætisráðherra meðal annars til samstarf við rússnesk yfirvöld á sviði Norðurskautsmála. „En þarna eru auðvitað miklar hræringar til að mynda hefur verið boðaður fundur forseta Bandaríkjanna og forseta Rússlands síðar í þessum mánuði,“ bætir hún við.

Eins og aðrir leiðtogar aðildarríkja NATO verður Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á fundinum. Ekki hefur verið boðaður tvíhliðafundur Katrínar og Trumps í Brussel að sögn hennar.

Hún segir að bókaðir séu tvíhliðafundir Íslands við Litháen, Króatíu, Lúxemborg og Grikkland. „Við erum að nýta þetta tækifæri til þess að funda með leiðtogum þessara ríkja,“ svarar Katrín, spurð hvort sérstakt tilefni sé að baki þess að fundað sé með þessum ríkjum á ráðstefnunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert