Dæmdur fyrir brot gegn sambýliskonu

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn í 5 mánaða fangelsi fyrir ofbeldi …
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn í 5 mánaða fangelsi fyrir ofbeldi í nánu sambandi og brot á lögum um barnavernd. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Karlmaður var í gær dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir fyrir ofbeldi í nánu sambandi og brot á barnaverndarlögum með því að hafa veist að sambýliskonu sinni og barnsmóður með hnefahöggum á meðan hún sat undir stýri bíls á Vesturlandsvegi við Úlfarsfell aðfaranótt 1. janúar á þessu ári. Börn þeirra voru í bílnum á meðan árásinni stóð.

Maðurinn var einnig dæmdur fyrir að hafa ráðist aftur á konuna síðar sömu nótt á heimili þeirra á meðan konan og maðurinn væri bæði með börn í fanginu. Tvö önnur börn konunnar urðu einnig vitni að árásinni. Af atlögunum hlaut konan mar á andliti og höfði, tognun á hálshrygg og áverka á hnjám.

Þá var maðurinn einnig kærður fyrir brot á umferðarlögum með því að hafa, eftir fyrri árásina, tekið við stjórn bílsins án þess að hafa ökuréttindi og ekið honum undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Var hann sýknaður af þeim hluta ákæru vegna skorts á sönnunargögnum. Sambýliskona og unnusta mannsins breytti framburði sínum fyrir dómi og sagði hann ekki hafa ekið bifreiðinni umrædda nótt þvert á vitnisburð hennar við yfirheyrslu hjá lögreglu. Að öðru leyti kaus hún að tjá sig ekki vegna náins sambands við ákærða.

Maðurinn á að baki talsverðan sakarferil, að mestu tengdan fíkniefnum, en hefur ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot. Við ákvörðun refsingar var litið til skýlausrar játningar mannsins fyrir dómi. Þá er þess getið í dóminum að samkvæmt hegðunarvottorði frá Sogni hafi maðurinn sýnt af sér góða hegðun frá því að hann hóf afplánum þar í lok maí. Það var þó ekki metið til refsilækkunar.

Horft var til þess að brot ákærða gegn sambýliskonunni voru alvarleg og þótti það auka alvarleikann að konan var akandi þegar ákærði kýldi hana. Einnig taldi dómurinn það auka grófleika verknaðarins að börn þeirra hafi orðið vitni að ofbeldinu. Var það metið honum til refsiþyngingar.

mbl.is