Gæslan ekki upptekin við ísbjarnarleit

Þó að TF-Sýn hafi verið við ísbjarnarleit voru aðrar þyrlur …
Þó að TF-Sýn hafi verið við ísbjarnarleit voru aðrar þyrlur til taks. mbl.is/Hari

Í frétt mbl.is í gær um björgun slasaðs göngumanns á Vestrahorni var því haldið fram að þyrla Landhelgisgæslunnar hafi ekki verið kölluð til sjúkraflutninga vegna þess að hún hefði verið við ísbjarnarleit á Melrakkasléttu. Þetta er ekki rétt.

Í ábendingu frá Landhelgisgæslunni segir að lögreglan á Suðurlandi hafi óskað eftir aðstoð frá Gæslunni til að flytja manninn og fór TF-GNÁ í loftið frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 10:34 í gærmorgun. Lögregla hafi hins vegar afturkallað beiðnina klukkan 11:04 þegar TF-GNÁ var stödd við ósa Markarfljóts og fór þyrlan þá í önnur verkefni.

Rétt er að ein þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SÝN, leitaði ísbjarnar á Melrakkasléttu á þessum tíma en það verkefni hafði ekki áhrif á sjúkraflugið.

mbl.is