Báru slasaðan göngumann um kílómetra leið

Félagar úr Björgunarfélagi Hornafjarðar að störfum á Vestrahorni í morgun.
Félagar úr Björgunarfélagi Hornafjarðar að störfum á Vestrahorni í morgun. Ljósmynd/Landsbjörg

Hópur af björgunarsveitarfólki frá Björgunarfélagi Hornafjarðar bar slasaðan göngumann um kílómetra leið frá Vestrahorni austan við Höfn í Hornafirði að vegslóða. Björgunarfélaginu barst útkall um klukkan átta í morgun vegna manns sem var á göngu á svæðinu og hafði slasast á fæti.

„Aðstæður voru ekkert slæmar þannig, en gönguleiðin er mjög grýtt og erfið yfirferðar fyrir fótgangandi,“ segir Jónas Friðriksson, félagi í Björgunarfélagi Hornafjarðar, í samtali við mbl.is.

Aðgerðirnar stóðu yfir í um fimm klukkutíma. Alls komu tólf manns að björguninni og bar hluti þeirra manninn á börum að vegslóða þar sem björgunarsveitarbíll beið eftir honum og flutti hann til Hafnar. Tveir sjúkraliðar og læknir voru í hópi björgunarfólksins sem kom sér vel að sögn Jónasar. Maðurinn er illa ökklabrotinn en heilsast að öðru leyti ágætlega.

Þyrlan upptekin við ísbjarnarleit

Undir venjulegum kringumstæðum hefði þyrla Landhelgisgæslunnar líklega verið kölluð til en hún er upptekin við ísbjarnarleit á Norðurlandi. „Við veltum því aðeins fyrir okkur hvort það væri áhættunnar virði að bera hann eða hvort við ættum að bíða eftir þyrlu, en þar sem hún var langt í burtu og annað verkefni fyrirliggjandi ákváðum við að fara bara af stað,“ segir Jónas.

Maðurinn var einn á ferð og segir Jón það mikla mildi að símasamband hafi verið á svæðinu þar sem hann slasaðist. „Hann gat gefið góðar upplýsingar um staðsetningu og við gengum beint að honum,“ segir Jónas.  

Maðurinn slasaðist á fæti og var borinn á börum af …
Maðurinn slasaðist á fæti og var borinn á börum af félögum úr Björgunarfélagi Hornafjarðar í gegnum grýtta gönguleið, um einn kílómeter, að vegslóða. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert