Handtaka í heimahúsi á Akureyri

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í heimahúsi á Akureyri í gær. Við leit á manninum fann lögreglan lítilræði af fíkniefnum. Hann var færður í fangageymslu þar sem hann er enn. Lögreglunni hafði borist tilkynning um ástand mannsins. 

Um klukkan 2 í nótt var lögreglunni á Akureyri tilkynnt um bílveltu í Mývatnssveit en bíllinn hafði endað á hvolfi utan vegar. Ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, var fluttur til skoðunar á Sjúkrahúsið á Akureyri en ekki er talið að meiðsli hans séu alvarleg. Hann er grunaður um ölvunarakstur og gistir nú fangageymslur lögreglunnar og verður yfirheyrður síðar í dag. Bíllinn skemmdist mikið við veltuna. 

Þá var tilkynnt um útafakstur á Ólafsfjarðarvegi um klukkan 4 í nótt. Ökumaður missti stjórn á bílnum sem hafnaði á hlið utan vegar. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Akureyri slapp ökumaðurinn án meiðsla. Ekki er vitað um orsök slyssins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert