Undirbúningur hafinn fyrir Þjóðhátíð

Lögreglan hefur fundað með fjölmörgum aðilum sem koma að hátíðinni …
Lögreglan hefur fundað með fjölmörgum aðilum sem koma að hátíðinni og skipulagi hennar. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur hafið undirbúning fyrir Þjóðhátíð, en unnið er að því að tengja löggæslumyndavélar í miðbæ Vestmannaeyja og á Básaskersbryggju. Allur búnaður og tengingar verða klárar og notkun hafin fyrir hátíðina, að því er segir í færslu lögreglunnar á Facebook.

Lögreglan hefur fundað með fjölmörgum aðilum sem koma að hátíðinni og skipulagi hennar. Að sögn gengur undirbúningur vel og er útlit fyrir að hátíðin í ár verði svipuð að stærð og í fyrra.

Þá kemur einnig fram að vinnulag lögreglu við miðlun upplýsinga verði eins og síðustu þrjú ár. Allar upplýsingar um verkefni lögreglu verða veittar um leið og búið er að tryggja rannsóknarhagsmuni og velferð mögulegra brotaþola.

Fimm kærur vegna umferðarlagabrota liggja fyrir það sem af er þessari viku, og tilkynnt var um eitt umferðaróhapp þar sem ökumaður var grunaður um að hafa verið undir áhrifum lyfja við aksturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert