Norðmenn funda með MAST um heyútflutning

Hugsanlega verður mögulegt að flytja hey til Noregs, ef MAST …
Hugsanlega verður mögulegt að flytja hey til Noregs, ef MAST getur vottað að heyið uppfylli kröfur norskra yfirvalda. Ljósmynd/Sigurður Kristinn Guðbjörnsson

Fulltrúar Matvælastofnunar (MAST) funduðu með fulltrúum norskra yfirvalda í gær í þeim tilgangi að skoða fýsileika þess að flutt verði hey frá Íslandi til Noregs, segir Þorvaldur H. Þórðarson, framkvæmdastjóri markaðsstofu MAST, í samtali við blaðamann mbl.is. Útflutningnum er ætlað að mæta hluta alvarlegs fóðurskorts sem orðið hefur í Noregi vegna mikilla þurrka.

Lars Petter Bartnes, formaður norsku bændasamtakana Norges Bondelag, hefur sagt við blaðamann að það verði undir innflutningsaðila komið að sjá til þess að innflutt hey standist norskar kröfur um heilnæmi og að íslenskt hey væri góður kostur þar sem strangar kröfur eru gerðar til matvælaframleiðslu hér á landi.

Þorvaldur staðfestir að innflytjandi þurfi að tryggja að innflutt hey þurfi að standast þessar fyrrnefndu kröfur, en bætir jafnframt við að sú leið sem er farin til þess að tryggja slíkt er að fá vottun frá stjórnvaldi útflutningslandsins. Þannig mun MAST þurfa að votta það hey sem flutt er til Noregs.

Hann segir stofnunina fyrst og fremst skoða heilnæmi vörunnar og þá sérstaklega með tilliti til dýra- og plöntusjúkdóma. Enn er ekki komið á hreint hverjar kröfur Norðmanna eru vegna þessa og er málið á byrjunarstigi.

Samkvæmt Þorvaldi verður haldið áfram að skoða þessi mál með norskum yfirvöldum. „Við erum bara að fikra okkur áfram og vita hvort við getum staðið undir þessum kröfum.“

Þorvaldur staðfestir að hey hafi verið flutt út áður, meðal annars til Færeyja. Hann bendir á að í því tilfelli hafi Færeyingar sett fram kröfur um heilnæmi heysins og féll það í hlut MAST að votta að heyið stæðist þær kröfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert