Andlát: Þorsteinn Ingólfsson, fyrrverandi sendiherra

Þorsteinn Ingólfsson.
Þorsteinn Ingólfsson.

Þorsteinn Ingólfsson, fyrrverandi sendiherra og ráðuneytisstjóri, lést í gær, 73 ára að aldri. Þorsteinn fæddist í Reykjavík 9.desember 1944 og ólst þar upp. Foreldrar Þorsteins voru Ingólfur Þorsteinsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík, og Helga Ingveldur Guðmundsdóttir húsfreyja.

Á sínum yngri árum stundaði Þorsteinn sund af kappi og hlaut verðlaun fyrir. Hann stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1965.

Þá útskrifaðist hann sem Cand.juris frá Háskóla Íslands vorið 1971 með fyrstu einkunn.

Á námsárum sínum starfaði hann sem fulltrúi hjá Almenna bókafélaginu og sem stundakennari við Flensborgarskólann í Hafnarfirði og við Verzlunarskóla Íslands.

Eftir útskrift hóf hann störf sem fulltrúi í utanríkisráðuneytinu en starfaði síðar m.a. sem sendiráðsritari í Washington D.C., varafastafulltrúi Íslands hjá EFTA og alþjóðastofnunum í Genf og sem ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins. Þá var hann aðalfulltrúi og yfirmaður skrifstofu Norðurlanda- og Eystrasaltsríkja í stjórn Alþjóðabankans í Washington á milli 2003 og 2006 og var fulltrúi Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins.

Hann gaf sig nokkuð að félagsstörfum og var m.a. fulltrúi stúdenta í Háskólaráði 1969-1970, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi 1972-1973 og ritari utanríkismálanefndar Alþingis 1990-1991.

Þorsteinn skilur eftir sig eiginkonu, Hólmfríði Kofoed Hansen, en þau giftust þann 21. apríl 1994 eftir nokkurra ára sambúð og hefðu átt silfurbrúðkaupsafmæli um næstu páska.

Þá skilur Þorsteinn eftir sig tvö börn úr fyrra hjónabandi, en hann var giftur Guðrúnu Valdísi Ragnarsdóttur á árabilinu 1967-1986. Börn þeirra eru Ingólfur, tölvunarfræðingur, og Hanna Valdís, viðskiptafræðingur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert