Áhrifin vart merkjanleg

MSC Meraviglia lagðist að bryggju á Akureyri í maí. Þetta …
MSC Meraviglia lagðist að bryggju á Akureyri í maí. Þetta er stærsta skemmtiferðaskipið sem nokkurn tíma hefur komið til Íslands. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Mælingar Umhverfisstofnunar við Strandgötu á Akureyri fyrstu rúmlega sex mánuði ársins 2018 sýna að áhrif útblásturs af völdum skemmtiferðaskipa í miðbæ Akureyrar voru mjög lítil og vart merkjanleg, utan við örfáa toppa sem voru þó allir vel undir heilsuverndarmörkum.

„Af þessum niðurstöðum er þó hægt að draga þá ályktun að útblástur svifryks, niturdíoxíðs og brennisteinsdíoxíðs frá skemmtiferðaskipum hafi ekki haft heilsufarsleg áhrif á fólk í miðbæ Akureyrar eða allra næsta nágrenni á umræddu mælitímabili,“ segir m.a. í minnisblaði verkfræðistofunnar EFLU um niðurstöðu mælinga Umhverfisstofnunar, sem unnið var fyrir Hafnarsamlag Norðurlands. Umhverfisstofnun tók saman niðurstöður mælinga frá mars 2018 til 11. júlí 2018 og EFLA vann minnisblaðið upp úr gögnunum.

Sjálfvirkur mælir Umhverfisstofnunar á Akureyri er staðsettur við menningarhúsið Hof við Strandgötu, á milli hafnarinnar og miðbæjar Akureyrar, þó nær miðbænum. Hann er staðsettur í um tveggja metra hæð frá jörðu og er um að ræða símælingu á svifryki (<PM10), brennisteinsdíoxíði (SO2), niturmónoxíði (NO) og niturdíoxíði (NO2).

Hægt er að sjá niðurstöður mælinga í rauntíma á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Fram kemur í minnisblaðinu að frá miðjum febrúar til 11. júlí fór sólarhringsmeðaltal svifryks (PM10) níu sinnum yfir heilsuverndarmörk. Seinast gerðist það 12. apríl og því ekki hægt að tengja þessa sérstöku háu toppa við útblástur frá skemmtiferðaskipum, enda kom ekkert skip svo snemma árs.

Í minnisblaðinu kemur fram að á tímabilinu hefur styrkur niturdíoxíðs (NO2) aldrei farið yfir heilsuverndarmörk og er vel undir þeim mörkum allt tímabilið. Þá hefur styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) verið mjög lítill og stöðugur á tímabilinu og aldrei verið nálægt því að fara yfir heilsuverndarmörk.

Lítill toppur mældist þó 3. júní. Þann dag var í höfn skemmtiferðaskip sem var smíðað árið 1972 og gæti gamall vélbúnaður og hönnun mögulega hafa orsakað þennan topp sem þó var langt undir heilsuverndarmörkum, segir m.a. í minnisblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert