Breytingar á Austurvelli

Gamli stígurinn verður girtur af vegna framkvæmda. Myndskreytingar verða á …
Gamli stígurinn verður girtur af vegna framkvæmda. Myndskreytingar verða á allri girðingunni að erlendri fyrirmynd. mbl.is/Alexander

Verið er að leggja bráðabirgðagöngustíg á vesturenda Austurvallar meðfram Thorvaldsensstræti. Göngustígurinn tekur ræmu af grasfletinum en jarðvegsdúkur var lagður á grasið og ofan á hann 40 sentimetra lag af möl. Til stendur að malbika stíginn á morgun ef veður leyfir.

Nýi bráðabirgðastígurinn er lagður vegna þess að gamli stígurinn verður brátt ónothæfur vegna byggingarframkvæmda á Landssímareit. Á næstunni verður grindverk sett upp á milli gamla stígsins og þess nýja, sem afmarkar gamla stíginn sem hluta af framkvæmdasvæði.

Benedikt Ingi Tómasson, byggingarverkfræðingur hjá BEKA verkefna- og byggingastjórnun sem sér um framkvæmdina, segir að þessi leið hafi verið valin vegna þess að stígurinn sem lagður er undir framkvæmdina er aðalgönguleið milli Alþingis og skrifstofubyggingar þingsins auk þess sem hann er notaður til að flytja vörur á kaffi- og veitingastaði við Austurvöll.

Hann segir að töluverðar pælingar séu bak við framkvæmd eins og þá sem nú er hafin á Landssímareitnum enda þurfi að tryggja aðkomu vinnuvéla að framkvæmdasvæðinu án þess að borgarlífið raskist um of.

Kostnaður við gerð bráðabirgðastígsins liggur ekki fyrir en samkvæmt upplýsingum frá borginni fellur hann á byggingarverktakann. Sömu sögu er að segja af kostnaði við að fjarlægja stíginn og stækka grasflötinn á ný þegar framkvæmdum er lokið, en Benedikt telur að það verði í seinasta lagi eftir tvö ár.

Nýi stígurinn klípur af grasfletinum.
Nýi stígurinn klípur af grasfletinum. mbl.is/Alexander
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert