Ljósmæður samþykktu miðlunartillögu

Frá fundi samningsnefndar ljósmæðra og ríkisins.
Frá fundi samningsnefndar ljósmæðra og ríkisins. mbl.is/Árni Sæberg

Ljósmæður hafa samþykkt miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu þeirra við ríkið. Þetta kemur fram í frétt á vef ríkissáttasemjara. 

Atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í máli Ljósmæðarafélags Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs lauk á hádegi í dag. 

Miðlunartillagan var samþykkt í atkvæðagreiðslu Ljósmæðrafélagsins með 95,1% atkvæða. 247 voru á kjörskrá og greiddu 224 atkvæði, eða 91%.

Þá samþykkti fjármála- og efnahagsráðherra miðlunartillöguna. Nýr kjarasamningur aðila hefur því komist á og mun hann gilda til 31. mars 2019, segir í frétt ríkissáttasemjara.

Miðlunartillagan felur meðal annars í sér að ríkissáttasemjari mun skipa þriggja manna gerðardóm sem mun fara yfir laun ljósmæðra. 

Einhugurinn kom á óvart

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, kom af fjöllum þegar blaðamaður innti hana eftir viðbrögðum við niðurstöðunni. Kom í ljós að ríkissáttasemjari hafði birt niðurstöður kosningarinnar á vefsíðu sinni án þess að samninganefnd ljósmæðra hefði verið látin vita.

Eftir að hafa fengið upplýsingar um úrslitin segir Katrín þó að niðurstaðan hafi í raun ekki komið á óvart. Hún hafi fundið fyrir því að ljósmæður væru samstíga á síðustu dögum, en samninganefndin kynnti helstu atriði samningsins á fundum með ljósmæðrum um helgina, bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Hún viðurkennir þó að það hafi komið henni á óvart hver einróma niðrstaðan var. „Ég átti kannski ekki alveg von á að þetta yrði svona afgerandi.“

Í samkomulaginu kemur fram að heilbrigðisráðuneytið veitir 60 milljónir króna aukalega til heilbrigðisstofnana sem hafa fæðingardeildir og segir Katrín að nú taki við þarfagreining á stofnununum til að meta hvernig eigi að deila því fé á stofnanirnar.

Uppfært klukkan 17:40: Í tilefni ummæla Katrínar vill ríkissáttasemjari taka fram að formönnum beggja samninanefnda hafi verið tilkynnt niðurstaðan með tölvupósti um leið og hún lá fyrir, upp úr klukkan 12. Hún segir einhvers misskilnings hafa gætt um að funda hefði átt sérstaklega með samninganefndnunum. Í miðlunartillögunni kom fram að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar skyldi kunngjörð eigi síðar en klukkan 14.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert