„Það hefði aldrei náðst sátt um þennan lið“

Guðbjörg Pálsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þeir bara áttuðu sig á því hve illa verkfallið myndi bíta og þess vegna fæst þessi niðurstaða. Þegar allir sáu að það stefndi í verkfall voru málin kláruð af ábyrgð, bæði af okkar hálfu og ríkisins, en einnig ríkissáttasemjara, sem setti fram þessa óvenjulegu tillögu,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, við mbl.is. „Það var algerlega ljóst hve mikilvægir hjúkrunarfræðingar eru í þessu kerfi og hvaða alvarlegu afleiðingar það hefði haft að til verkfalls kæmi.“

Í gær lagði ríkissáttasemjari fram miðlunartillögu í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga við ríkið, sem er óvenjuleg að því leyti að aðeins afmarkaður þáttur í samningnum fer fyrir gerðardóm. Þriggja manna gerðardómur sem sáttasemjari mun skipa mun aðeins skera úr um launaliðinn í samningnum. Um önnur atriði hefur náðst sátt og þær breytingar taka þegar gildi, ef félagsmenn FÍH samþykkja miðlunartillöguna í atkvæðagreiðslu sem hefst á miðvikudag og stendur til laugardags.

Guðbjörg ítrekar í samtali við mbl.is að um sé að ræða miðlunartillögu, en ekki sáttatillögu eða endanlegt samkomulag. „Eins og allir vita höfum við ekki náð samkomulagi um launaliðinn. Ríkið hefur ekki séð sér fært um að mæta kröfum okkar þar og ágreiningurinn hefur verið of djúpstæður til að komast að samkomulagi um þann lið. En við höfum ekki hvikað eina tommu frá kröfunum, þannig að baráttan hefur borgað sig,“ segir Guðbjörg.

Það besta í stöðunni

Guðbjörg segir að þó að gerðardómur sé ekki ákjósanlegasta leiðin, hafi hann reynst hjúkrunarfræðingum vel fyrir fimm árum. Hún treysti því að þetta sé það besta í stöðunni, enda nái samningsaðilar einfaldlega ekki saman. „Það hefði aldrei náðst sátt um þennan lið, alveg sama hvort það er núna eða inni í verkfalli: Við hefðum ekki hvikað frá okkar kröfum,“ segir hún.

Atriði samningsins verða kynnt hjúkrunarfræðingum á fundi í dag og á morgun og Guðbjörg hefur trú á að hann falli í frjóan jarðveg, þó að ekki sé hægt að spá fyrir um það. Kjarabæturnar sem þegar hafi verið komið til leiðar í samningnum séu verulegar. „Það er margt búið að gerast á þeim 15 mánuðum sem við höfum verið að. Stórum þáttum í okkar kröfugerð hefur verið mætt, eins og stytting vinnuvikunnar og bætt starfsumhverfi. Við erum með þætti í þessum samningi sem hafa aldrei náðst áður og ég er í heildina sátt við hann,“ segir Guðbjörg.

Guðbjörg segir mjög óvenjulegt að ríkissáttasemjari skuli stíga fram á þessu stigi með miðlunartillögu af þessum toga. „Þetta er mjög sérstakt. Það þarf mikið til og við sjáum þetta sjaldan,“ segir hún. Hún segir að sáttasemjari hafi sýnt það síðustu mánuði að unnið verði af ábyrgð við skipun í dóminn og að allir fái tækifæri til að skila inn gögnum og koma sínum rökstuðningi á framfæri áður en ákvörðun verður tekin um launin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert