Verkfalli hjúkrunarfræðinga afstýrt

Frá samningafundi í gær.
Frá samningafundi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkissáttasemjari hefur lagt fram miðlunartillögu í deilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins og hefur verkfalli, sem hefjast átti klukkan átta í fyrramálið, verið afstýrt.

Í samtali við mbl.is segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari að náðst hafi samkomulag milli samningsaðila um öll atriði kjarasamningsins ef frá er talið afmarkað atriði er varði laun. Því hafi ríkissáttasemjari lagt fram tillögu um að launaliðnum yrði vísað í gerðardóm og verkfalli því afstýrt, ekki síst vegna mikilvægis stéttar hjúkrunarfræðinga og þess að þetta eina vel skilgreinda ágreiningsmál hafi staðið út af borðinu.

Þriggja manna gerðardómur úrskurði um launalið

Greidd verða atkvæði um miðlunartillöguna meðal félagsmanna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Atkvæðagreiðslan verður rafræn og hefst hún klukkan 12 á hádegi miðvikudaginn 24. júní og stendur til klukkan 10 laugardaginn 27. júní. Þangað til verður innihald hennar ekki birt öðrum en þeim sem eiga hlut að máli. Verði tillagan samþykkt skipar ríkissáttasemjari þriggja manna gerðardóm sem kveða mun á um launaliðinn, en um önnur samningsatriði fer samkvæmt samkomulagi samningsaðila. 

Kjarasamningar hjúkrunarfræðinga hafa verið lausir síðan 31. mars 2019 en málinu var vísað til ríkissáttasemjara í febrúar 2020. Hjúkrunarfræðingar hafa þegar fellt kjarasamning einu sinni, en í lok apríl greiddu 53% hjúkrunarfræðinga atkvæði gegn samningi sem þá hafði verið undirritaður.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina