Ábyrg afstaða hjúkrunarfræðinga

Sáttafundur hjúkrunarfræðinga og ríkisins. Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, er …
Sáttafundur hjúkrunarfræðinga og ríkisins. Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, er fyrir miðju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, bindur vonir við að allir aðilar samþykki miðlunartillögu ríkissáttasemjara um kjarasamning ríkisins við hjúkrunarfræðinga. „Með þessari leið sýna hjúkrunarfræðingar ábyrga afstöðu og afstýra verkfalli en fyrirgera ekki kröfu sinni,“ segir hann.

„Krafa hjúkrunarfræðinga nýtur vafans og ríkið er reiðubúið að leggja þetta svona upp til að afstýra verkfallinu og þar með fer þetta í slíkan farveg að þriðji aðili tekur ákvörðun um málið,“ segir Sverrir í samtali við mbl.is. 

Í gær lagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari fram miðlunartillögu í kjaradeilunni, sem felst í að vísa afmörkuðum þáttum í launaliðnum í gerðardóm þriggja aðila sem sáttasemjari mun svo skipa. Ákvörðunin um að fara þessa leið bíður samþykktar félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og hefst sú atkvæðagreiðsla á miðvikudag og stendur fram á laugardag.

Þegar Sverrir segir að krafa hjúkrunarfræðinga njóti vafans vísar hann til þess að henni hefur ekki verið hafnað. „Krafa þeirra um launahækkanir er meiri en ríkið hefur getað mætt en með þessu fer það í umfjöllun gerðardóms. Þar með lifir krafan þeirra enn,“ segir hann.

Tímamótabreytingar um vinnutíma

Að sögn Sverris eru umræddir afmarkaðir þættir launaliðar, sem vísa á til gerðardóms, aðeins einn hluti af stóra samhengi samningsins. „Allt annað, sem er meira en minna, er orðið samkomulagsatriði á milli samningsaðila. Báðir aðilar eru sáttir við meirihluta samningsins og ég held að við séum sammála um að þær breytingar sem við höfum þegar náð saman um skipti miklu máli fyrir heilbrigðiskerfið og séu góðar breytingar fyrir hjúkrunarfræðinga,“ segir hann.

Samþykki hjúkrunarfræðingar miðlunartillögu sáttasemjara taka þau atriði sem sátt er komin á um að þegar gildi. Þau atriði eru „tímamótabreytingar um vinnutíma og mikilvæg atriði sem varða starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga“ að sögn Sverris, en um efni þeirra tjáir hann sig ekki enda ríkir trúnaður um innihald tillögunnar. Rétt sé að félagið sjái um að kynna breytingarnar.

mbl.is