Hálf milljón í styrk vegna gæslu

Frá tjaldsvæðinu Hömrum á Akureyri.
Frá tjaldsvæðinu Hömrum á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að veita stjórn tjaldsvæðisins við Hamra styrk fyrir allt að hálfa milljón króna vegna aukins viðbúnaðar á tjaldsvæðum á Akureyri um verslunarmannahelgina.

Styrkurinn er háður því skilyrði að kalla þurfi til aukamannskap vegna aukins viðbúnaðar og felur bæjarráð Akureyrarstofu að skipa fulltrúa vegna samráðs og samstarfs.

Bæjarstjóra er einnig falið að ræða við forsvarsmenn stjórnar Hamra um endurnýjun á samningi um rekstur tjaldsvæða Akureyrarbæjar.

Fram kemur í bréfi frá stjórn Hamra til Akureyrarbæjar að það sem hefur áhrif á þörfina fyrir stóraukna gæslu er að tjaldsvæðin á Akureyri eru með 18 ára aldurstakmark. Mörg tjaldsvæði sem hafi aðdráttarafl fyrir unga gesti þessa helgi hafi hækkað aldurstakmarkið, til dæmis upp í 23 ár.

„Þetta getur haft þau áhrif að aldurshópurinn 18- 23 ára sæki frekar hingað. Í samræmi við þetta og auglýsta dagskrá á Akureyri um komandi verslunarmannahelgar má búast við aukningu á fjölda þeirra gesta sem valda mestum aukakostnaði vegna gæslu og annars viðbúnaðar um helgina,“ segir í fundargerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert