Kerecis Evrópumeistarar í mýrarbolta

Frá mýrarboltanum á Ísafirði árið 2013.
Frá mýrarboltanum á Ísafirði árið 2013. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Kerecis eru Evrópumeistarar í mýrarbolta árið 2018 eftir frækinn sigur á Mínútumönnum í hreinum úrslitaleik sem fór fram í dag. Úrslitaleikurinn fór í vítaspyrnukeppni. Jóhann Bæring Gunnarsson segir Mínútumenn enn vera að jafna sig á tapinu en þeir séu þó orðnir vanir öðru sætinu.

„Það voru ellefu lið skráð í ár og kepptum við í einum blönduðum flokki. Það verður ball í kvöld og við ætlum svo að vera með lokahóf og verðlaunaafhendingu annað kvöld,“ segir Jóhann Bæring. Mýrarboltinn fór fram í Bolungarvík annað árið í röð, en keppnin var færð frá Ísafirði í gegnum Óshlíðargöng yfir til Bolungarvíkur fyrir tveimur árum.

„Þetta er miklu betri staður. Vellirnir voru ekki nógu góðir hjá okkur í fyrra en við löguðum það og sönnuðum að þetta eru geggjaðir vellir,“ segir Jóhann og bætir við að allur aðbúnaður sé betri í Bolungarvík til þess að geta haldið mótið. Hann saknar þó heimaliðanna sem lengi voru uppistaðan í keppninni en aðeins eitt heimalið var skráð til leiks í ár og það voru sjálfir meistararnir.

„Þeir sem koma taka þessari breytingu mjög vel, en heimaliðin eru ekki að skila sér. Það var alltaf sterkur kjarni af heimaliðum en þau hafa verið eitthvað feimin við þetta núna,“ segir Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert