Farþegarnir komnir á leiðarenda

Air Iceland Connect.
Air Iceland Connect. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við gátum sent vél klukkan hálffimm sem er frekar fljótt á eftir. Ég held að flestir hafi farið nema einhverjir hafi ekki átt erindi austur lengur,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect. Snúa þurfti flugvél félagsins við stuttu eftir að hún hóf flug þar sem bilun kom upp í hægri hreyfli vélarinnar.

44 farþegar auk áhafnar voru um borð í vélinni sem var á leið til Egilsstaða. Viðbragðsaðilar voru kallaðir til og gekk vinna þeirra vel fyr­ir sig að sögn lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, en vélin lenti á Reykjavíkurflugvelli og engan sakaði.

„Svona atvik geta komið upp og vélar eru auðvitað hannaðar til að geta flogið á öðrum hreyflinum. Þetta er einn af þeim þáttum sem er hvað mest æfður hjá okkur varðandi viðbragð þannig að þetta eru mjög stöðluð viðbrögð hjá okkur,“ segir Árni.

Þá segir Árni ekki rétt að eldur hafi kviknað í heila hreyflinum sökum álags, en eftir því sem fram kemur í frétt Vísis um málið tjáði flugvallarstarfsmaður farþega að svo væri.

Ætla má að rannsóknarnefnd samgönguslysa hefji von bráðar rannsókn á málinu. „Það er hefðbundið að rannsóknanefndin skoði svona atvik hjá okkur og fari yfir þetta með okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert