Viðeyjarstofa markaði ný spor

Þrjátíu ár eru liðin síðan ráðist var í endurbætur á …
Þrjátíu ár eru liðin síðan ráðist var í endurbætur á Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju. mbl.is/Ómar

Í tilefni þess að þrjátíu ár eru liðin frá endurbótum á Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju mun Borgarsögusafn Reykjavíkur bjóða upp á leiðsögn og staðarskoðun í Viðey á sunnudag.

Magnús Sædal Svavarsson, framkvæmda- og byggingastjóri endurbyggingarinnar, annast frásögn, en hann var byggingarfulltrúi Reykjavíkur árin 1993 til 2011.

Ný stefna í byggingarsögunni

Viðeyjarstofa er meðal sögufrægustu húsa Íslandssögunnar og reis hún árið 1755. Var Viðeyjarkirkja vígð nokkrum árum síðar, árið 1774.

„Bygging þessara húsa markaði ný spor í íslenskri byggingarsögu. Þarna var byggt úr steini og síðan fylgdu á eftir þau hús sem kölluð hafa verið gömlu steinhúsin á Íslandi, Stjórnarráðshúsið, Nesstofa, Bessastaðir, Hóladómkirkja, Viðeyjarkirkja og Landakirkja,“ segir Magnús. „Það þóttu undur og stórmerki þegar húsið reis, þarna voru eldstæði og reykháfar sem menn varla þekktu áður,“ segir hann.

Vinna við endurbætur á Viðeyjarstofu hófust í mars árið 1987 og lauk þeim 18. ágúst 1988. Í millitíðinni fór fram fornleifauppgröftur norðan við Viðeyjarstofu, en þar komu í ljós leifar af Viðeyjarklaustri. Í tilefni af 200 ára kaupstaðarafmæli Reykjavíkur fékk borgin húsin að gjöf frá íslenska ríkinu og var í kjölfarið ákveðið að hefja endurbæturnar undir stjórn Þorsteins Gunnarssonar arkitekts.

„Ég vil meina að viðgerð Reykjavíkurborgar á stofunni hafi leitt til þess að menn hafi farið að gefa þessum gömlu steinhúsum meiri gaum í framhaldinu. Það er kenning mín að glæsilegt frumkvæði Reykjavíkur undir forystu Davíðs Oddssonar, þáverandi borgarstjóra, hafi orðið til þess að farið hafi verið að sinna þessu meira og betur. Bessastaðir voru t.a.m. alveg teknir í gegn,“ segir Magnús. „Þetta er eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef komið að,“ segir hann og nefnir að sérstakur þjóðarvilji hafi verið um endurbæturnar. „Það var sérlega góð tilfinning að það vildu þetta allir,“ segir Magnús.

Þátttaka í göngunni er ókeypis, en greiða þarf í Viðeyjarferju. Siglt verður frá Skarfabakka klukkan 13.15, en þeir sem vilja snæða hádegisverð í Viðeyjarstofu fyrir gönguna geta siglt klukkan 12.15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert