Frakkarnir greiddu sektina í morgun

Mennirnir komu á lögreglustöðina á Egilsstöðum í morgun og greiddu …
Mennirnir komu á lögreglustöðina á Egilsstöðum í morgun og greiddu hver og einn 100 þúsund krónur í sekt. Ljósmynd/Lögreglan

Þrír franskir ferðamenn sem gerðust sekir um utanvegaakstur á vegi F910 á svo­kallaðri aust­ur­leið inni á Möðru­dals­ör­æf­um á laugardag greiddu hver um sig 100 þúsund krónur í sekt í morgun.

Ferðamenn­irn­ir voru sex tals­ins á þrem­ur jepp­ling­um á leið á há­lendið en óku þessa leið til að kom­ast í Kverk­fjöll og á Öskju.

Að sögn varðstjóra lög­regl­unn­ar á Aust­ur­landi voru tveir mannanna ánægðir með málalokin en sá þriðji var óánægður. 

Sá var óánægður vegna þess að hann vissi ekki að það mætti ekki keyra utanvegar á Íslandi fyrr en hann var búinn að því. Honum var bent á að kynna sér aðstæður áður en haldið er af stað í ókunnugu landi.

Sektarheimildir vegna utanvegaaksturs eru á bilinu 50 til 500 þúsund krónur.

mbl.is