„Meiðandi og alvarleg“ ummæli fulltrúa

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg hefur óskað eftir því við forsætisnefnd borgarinnar að tekið verið til skoðunar hvort ákvæði sveitarstjórnarlaga um réttindi og skyldur kjörinna fulltrúa og siðareglur þeirra hjá Reykjavíkurborg hafi verið brotin í umræðu þeirra um að hún hafi lagt undirmann sinn í einelti.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Reykjavíkurborg í júní til að greiða bætur vegna slæmrar framkomu skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Auk þess var skrifleg áminning sem Reykjavíkurborg hafði veitt starfsmanninum ógilt.

„Þær rangfærslur sem settar hafa verið fram af hálfu borgarfulltrúa og hafa ratað í fjölmiðla um meint einelti af hálfu undirritaðrar í garð undirmanns, sem og umræðu um að umrætt dómsmál hafi staðfest slíkt einelti eru meiðandi og alvarlegar,“ segir Helga Björg Ragnarsdóttir í bréfi til forsætisnefndar. 

Í bréfinu bendir hún á að í dómi héraðsdóms komi hvergi fram að um einelti hafi verið að ræða.

Helga Björg óskar einnig eftir því að tekið verði til skoðunar hvort tilefni sé til að leita álits siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga á ummælum einstakra borgarfulltrúa um hana í umræðum um dómsmálið.

Tvær rannsóknir til viðbótar

Helga Björg segist í bréfinu hafa óskað eftir því í bréfi til borgarritara, í framhaldi af málflutningi við aðalmeðferð um að starfsmaðurinn taldi sig lagðan í einelti af hennar hálfu, að fram færi rannsókn á því hvort um einelti væri að ræða.

„Rannsóknin hefur ekki verið sett af stað en undirrituð bindur vonir við að hún geti hafist sem allra fyrst. Það er ekki rétt sem haldið hefur verið fram af borgarfulltrúa að sú beiðni hafi verið sett fram eftir að dómur féll og að áfrýjunarfrestur málsins hafi verið liðinn,“ skrifar hún.

Jafnframt hefur hún óskað eftir því við borgarritara að fram fari rannsókn á framkomu hennar í garð undirmanna sinna til að kanna hvort lýsingin sem dómurinn setti fram eigin við rök að styðjast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert