„Var alltaf með allt mitt á hreinu“

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík.
Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík. mbl.is/Valli

„Ég veit upp á hár hver eru valdmörk kjörinna fulltrúa og embættismanna, en stjórnsýsla Reykjavíkur virðist ekki hafa áttað sig á því hvar valdmörkin liggja. En ég fékk það staðfest þarna með áliti frá lektor í Háskóla Íslands í frétt í Morgunblaðinu í morgun,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, í samtali við mbl.is.

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Evu Marín Hlynsdóttur, sérfræðing í opinberri stjórnsýslu og lektor við stjórnmálafræðideild, um tölvubréf Stefáns Eiríkssonar borgarritara þar sem hann sakaði Vigdísi um trúnaðarbrest og erindi Helgu Bjargar Ragnarsdóttur skrifstofustjóra til forsætisnefndar vegna „opinberrar umræðu borgarfulltrúa“, Vigdísar, um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í skaðabótamáli sem Reykjavíkurborg tapaði vegna framkomu Helgu Bjargar í garð fjármálastjóra borgarinnar.

Eva Marín telur embættismennina mögulega hafa hlaupið á sig með ávirðingum sínum í garð Vigdísar, sem hafði, eins og fram hefur komið, rætt um málið út frá upplýsingum sem hún fékk frá Kjarafélagi viðskipta- og hagfræðinga, en var ekki að leka trúnaðarupplýsingum sem bornar höfðu verið fram á fundi borgarráðs.

Vigdís óskaði eftir fundi með aðilum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til þess að fara yfir þessi mál, útskýra sitt mál og fá ráðgjöf og upplýsingar. Fundurinn fór fram í dag og segir Vigdís hann hafa verið ágætan og gagnlegan.

Spurningum ósvarað

Hún hefur óskað eftir því að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli fjármálastjórans gegn borginni verði tekinn aftur til umræðu í borgarráði. Vigdís segir að formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, hafi óskað eftir því að það yrði ekki tekið fyrir á fundi á morgun, þar sem enn eigi eftir að svara spurningum um málið sem Vigdís lagði fram í síðustu viku.

mbl.is/Ófeigur

Þær spurningar lúta meðal annars að því hvort borgarlögmaður og borgarritari hafi haft vitneskju um og samþykkt áminninguna sem fjármálastjóri borgarinnar fékk og um það hvort einhver utanaðkomandi aðili hefði verið fenginn til ráðgjafar áður en áminningin var veitt.

„Í ljósi þessa féllst ég á að fresta málinu um viku,“ segir Vigdís.

Eineltisrannsókn heldur áfram

Vigdís segir að hún hafi hitt fjármálastjóra borgarinnar í hádeginu í dag og athugað hvernig hann hefði það. Hún segir að hann hafi tjáð sér að hann hefði það ágætt, en að rannsókn á því hvort hann hefði verið lagður í einelti af hálfu skrifstofustjórans héldi áfram. Skrifstofustjórinn, Helga Björg, óskaði eftir rannsókninni vegna þess sem kom fram við aðalmeðferð máls fjármálastjórans fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr á árinu.

„Hann sagði að eineltisrannsóknin héldi áfram, þrátt fyrir það sem gengið hefði á. Ég er bara furðu lostin yfir því sko. Ég næ þessu ekki, hvert þau eru að fara. Rannsóknarréttur ráðhússins heldur áfram. Þrátt fyrir það sem á undan er gengið,“ segir Vigdís.

Segir trúnaðarbrest felast í erindi skrifstofustjóra

Vigdís segir „hótunarbréf borgarritara“ í sinn garð vera það „langalvarlegasta í þessu öllu saman“, þar sem Stefán nánast hóti sér lögsókn og nefnir einnig að í erindi Helgu Bjargar til forsætisnefndar felist trúnaðarbrestur er hún skrifar:

„Í umfjöllun fjölmiðla, í umræðu á samfélagsmiðlum og í borgarráði var gefið til kynna og jafnvel fullyrt að dómurinn hafi snúist um einelti og að Reykjavíkurborg hafi verið dæmd til greiðslu miskabóta vegna eineltis af hálfu undirritaðrar í garð stefnanda.“ 

Vigdís segir að þar sem vísað sé til orða sem féllu í borgarráði í erindinu, sé ljóst að tvíþætt trúnaðarbrot hafi átt sér stað. Í fyrsta lagi hafi einhver sem sat fundinn upplýst skrifstofustjórann um það sem þar hafi verið sagt og í öðru lagi felist trúnaðarbrot af hálfu Helgu Bjargar í því að vísa til orða sem fallið hafi í borgarráði í erindinu.

Vigdísi er til efs að kjörinn fulltrúi hafi lekið upplýsingum út úr ráðinu og telur að trúnaðarbrotið sé embættismanns.

„Ef það er einhver sem hefur lekið trúnaðarupplýsingum þá er það hún, því í því bréfi stendur að hún hafi upplýsingar innan úr borgarráði. Því spurði ég á [forsætisnefndar-] fundinum: „Bíddu hvaðan hefur þessi embættismaður upplýsingar innan úr borgarráði nema frá þeim embættismönnum sem sitja fundina?“. Hún gerist uppvís um trúnaðarbrot sjálf. Þessi kona á ekki að hafa neinar upplýsingar innan úr borgarráði, því um þær ríkir trúnaður,“ segir Vigdís.

mbl.is/Ófeigur

Hún segist vera að vinna í þágu allra kjörinna fulltrúa, með því að skýra hvar valdmörk embættismanna liggja.

„Ég er ekki bara að vinna fyrir mig heldur að láta reyna á þetta, hvar valdmörk embættismanna og þeirra sem vinna í stjórnsýslunni liggja gagnvart kjörnum fulltrúum. Ég vissi þetta allan tímann og var alltaf með allt mitt á hreinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert