Losun frá flugi jókst um 13,2% milli ára

Losun frá flugi til og frá Íslandi jókst um 13,2% …
Losun frá flugi til og frá Íslandi jókst um 13,2% milli áranna 2016 – 2017 og var heildarlosun í flugi sem fellur undir kerfið 813.745 tonn koltvísiringsígilda. AFP

Losun frá flugi til og frá Íslandi jókst um 13,2% milli áranna 2016 og 2017 og var heildarlosun í flugi sem fellur undir kerfið 813.745 tonn koltvísiringsígilda, að því er fram kemur í frétt á vef Umhverfisstofnunar.

Alls gerðu fimm íslenskir flugrekendur og sjö rekstraraðilar iðnaðar upp heimildir sínar og var aukning í losun frá flugi til og frá landinu líkt og fyrri ár. Þeim flugrekendum sem bar skylda til að gera upp losun sína fækkaði hins vegar um einn, úr sex í fimm.

Árið 2016 var losunin 718.624 tonn af koltvísiringi en á síðasta ári 813.745 tonn. Losunin sem hér getur um, er þó eingöngu hluti af heildarlosun af flugi til og frá landinu, þar sem hún nær eingöngu til losunar innan EES-svæðisins. Þannig er Ameríkuflug, eða flug til ríkja utan EES- eða ESB-ríkja ekki inni í þessari tölu og má því gefa sér að hún sé þó nokkuð hærri.

Losunin í iðnaði jókst einnig lítillega á milli ára, eða um 2,8%. Fór hún úr 1.780.965 tonnum af CO2 árið 2016 í 1.831.667 tonn árið 2017 og hélst fjöldi þeirra rekstraraðila í iðnaði sem gerðu upp fyrir árið 2017 óbreyttur frá árinu á undan og voru þeir sjö talsins.

Losunarheimildum flugrekenda fækkaði um 5%

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, ETS (e. Emission Trading System) gegnir lykilhlutverki í aðgerðum ESB gegn loftslagsbreytingum. Er rekstraraðilum iðnaðar og flugrekendum úthlutað losunarheimildum í samræmi við staðlaðar reglur um fyrirframákveðnar takmarkanir og er þeim gert að greiða fyrir það sem þeir losa umfram endurgjaldslausar losunarheimildir.

Kerfið nær utan um 45% af losun gróðurhúsalofttegunda innan ESB og hefur það markmið að árið 2020 verði losun í þeim geirum sem falla undir kerfið 21% lægri en hún var árið 2005, og 43% lægri árið 2030. Þannig fækkaði losunarheimildum flugrekenda um 5% fyrir viðskiptatímabilið 2013-2020 miðað við meðallosun árin 2004-2005, að því er fram kemur í frétt Umhverfisstofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina