Vilja þungarokkshátíð í Mosfellsbæ

Frá hátíðinni Oration.
Frá hátíðinni Oration. Ljósmynd/Void Revelations

Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur vísað til umsagnar erindi um að alþjóðleg þungarokkshátíð verði haldin í bænum næsta sumar.

Þau Stephen Lockhart og Gunnhildur Edda Guðmundsdóttir, sem búa í Mosfellsbæ, eru skipuleggjendur hátíðarinnar sem þau ætla að halda í fyrsta sinn síðsumars á næsta ári.

Þau eru að leita að samstarfi við bæjarfélag sem hefur áhuga á að hýsa hátíðina næstu árin. Stefnt er að því að bjóða 10 til 12 erlendum og álíka mörgum íslenskum hljómsveitum að spila á hátíðinni.

Hún á að fara fram innanhúss og vonast tónleikahaldararnir til að fá Hlégarð undir viðburðinn.

Hátíðin, sem nefnist Ascension MMXIX, á að standa yfir í þrjá daga.

Hlégarður í Mosfellsbæ þar sem þungarokkshátíðin verður hugsanlega haldin.
Hlégarður í Mosfellsbæ þar sem þungarokkshátíðin verður hugsanlega haldin. mbl.is/Eggert

Hafa staðið að hátíðinni Oration

Gunnhildur er menntaður hönnuður sem hefur unnið nokkur verkefni fyrir Mosfellsbæ, þá helst í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima.

Stephen starfar sem hljóðupptökumaður og hefur unnið með fjölda hljómsveita og tónlistarmanna. Hann rekur hljóðverið Studio Emissary í Mosfellsbæ.

Þau hafa hafa síðastliðin 3 ár staðið að tónlistarhátíðinni Oration í miðborg Reykjavíkur sem hefur dregið að sér 300 til 500 manns. Þar af eru um 60% útlendingar frá öllum hornum heimsins. Ascension-tónlistarhátíðin verður sett upp fyrir sama hóp af fólki.

Frá tónlistarhátíðinni Eistnaflugi í Neskaupstað.
Frá tónlistarhátíðinni Eistnaflugi í Neskaupstað. Ljósmynd/Ásgeir Helgi

Litið til Eistnaflugs

Við skipulagninguna er litið til tónlistarhátíðarinnar Eistnaflugs og samstarfs forsvarsmanna hennar við Neskaupstað, sem hefur gengið vel.

„Orðspor, verslun og menningargildi hátíðar sem þessarar hefur sýnt og sannað mikilvægi sitt í þeim bæjarfélögum sem bjóða slíkum hátíðum heim og ef vel er að staðið blómstra báðir aðilar í kjölfarið,“ segir í bréfi skipuleggjendanna til bæjarráðs.

Þar er einnig reiknað með að flestir gististaðir Mosfellsbæjar verði uppbókaðir vegna hátíðarinnar.

„Hreinlæti, snyrtileg og fagmannleg umgjörð er forgangsatriði viðburðanna okkar,“ segir í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert