„Algerlega hræðilegt“

Horft yfir níundu brautina á Hvaleyrarvelli.
Horft yfir níundu brautina á Hvaleyrarvelli. mbl.is/Ófeigur

„Það er bara algerlega hræðilegt að svona atvik komi upp en til allrar hamingju er þetta ekki algengt. Það hefur komið fyrir að kylfingar fá bolta í sig og er það yfirleitt vegna þess að einhver annar er að slá,“ segir Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, um slysið sem varð á Hvaleyrarvelli í síðasta mánuði.

Karlmaður á sextugsaldri fékk kúlu í augað eftir að hún endurvarpaðist af hrauni við völlinn. „Svona mál eiga sér ekki eftirmál innan sambandsins,“ segir Haukur. Þar sem þetta sé einfaldlega slys og enginn virðist eiga neitt sökótt við annan leysi fólk þetta án afskipta stofnana.

Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands.
Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands. Ljósmynd/Golf.is

Málið sem hér um ræðir var bersýnilega slys. Þó hendir að fólk fari ekki nógu varlega í umgengni við aðra á golfvellinum. „Slysin gerast alveg. Sumir fara annaðhvort óvarlega og bíða ekki eftir að þeir sem á undan fari séu komnir nógu langt burt eða þá að boltinn fer eitthvað sem hann á ekki að fara,“ segir Haukur.

„Þá er ekki alltaf nóg að hrópa „fore“ því fólk gæti ekki heyrt það út af vindi eða öðru,“ segir Haukur, sem vonar að atvikið veki fólk til umhugsunar um að fara gætilega á vellinum, því þar er hægt að slasa sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert