Kröfur til fyrirtækja aukist „gríðarlega“

Fólk á gangi í Smáralind.Kröfur um að fyrirtæki axli samfélagslega …
Fólk á gangi í Smáralind.Kröfur um að fyrirtæki axli samfélagslega ábyrgð hafa vaxið mikið. mbl.is/Golli

„Kröfur til fyrirtækja um að þau þurfi að axla samfélagslega ábyrgð hafa aukist gríðarlega. Ef markaðsráðandi fyrirtækin mæta ekki þessum kröfum, þá skapast tækifæri fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem starfa á ábyrgan hátt gagnvart t.d. umhverfinu og samfélaginu,“ segir Ragna Sara Jónsdóttir, frumkvöðull og stofnandi hönnunarmerkisins FÓLKS.  

Fleiri vilja vera ábyrgir neytendur

Ragna Sara fjallaði um mikilvægi þess að horfa til samfélags- og umhverfisþátta í nýsköpun í hádeginu í dag á opnum fundi í Norræna húsinu. Fundurinn var á vegum Höfða friðarseturs, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og samstarfsaðila Snjallræðis.

Sífellt fleiri vilja vera ábyrgir neytendur, að sögn Rögnu, t.d. í ljósi mikillar vakningar í dýraverndunarmálum. Það sé fyrirtækjum vænlegt til árangurs að mæta kröfunum og breyta gömlum háttum.

Dæmi um fyrirtæki sem hefur gert það er tískufataframleiðandinn Burberry, en upp komst fyrir ári að fyrirtækið brenndi vörur sem ekki seldust, sem vakti mikla reiði meðal umhverfissinna. Fyrirtækið hefur nú ákveðið að hætta að brenna vörurnar.  

Ragna hélt fjallaði um mikilvægi samfélagslegrar nýsköpunar.
Ragna hélt fjallaði um mikilvægi samfélagslegrar nýsköpunar. Ljósmynd/Aðsend

„Í ljósi hnattrænna vandamála eins og t.d. loftslagsbreytinga hafa kröfur til fyrirtækja um að axla ábyrgð vaxið gríðarlega á síðustu 10 árum. Ég held að fyrirtæki sem svara þessum kröfum almennings eigi meiri tækifæri á að njóta velgengni.

Helmingurinn af fólki sem er fætt á bilinu 1980 til 1990 er til í að taka á sig launalækkun til að taka á sig starf sem passar við þeirra gildi og sjálfsmynd í lífinu. Þetta sýnir að atvinnulífið þarf að aðlaga sig að þessari viðhorfsbreytingu,“ segir Ragna. 

Sjö nýsköpunarverkefni verða valin í Snjallræði

Á fundinum fjallaði Ragna einnig um hugtakið samfélagsleg nýsköpun en það snýst um að horfa til ávinnings samfélagsins af nýsköpun sem er drifinn áfram af umhverfis- og samfélagsþáttum.

Þar var einnig Snjallræði kynnt, sem er fyrsti íslenski viðskiptahraðallinn fyrir samfélagslega nýsköpun. Hann hefur göngu sína 10. október. Sjö verkefni á sviði samfélagslegrar nýsköpunar verða valin til þátttöku og fá vinnuaðstöðu í Húsi skapandi greina við Hlemm. Umsóknafrestur er til 10. september og nálgast má frekari upplýsingar um verkefnið hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert