„Ekki með öll eggin í sömu körfu“

Það mun taka langan tíma að ná utan um tjónið sem varð í brunanum á Þjóðminjasafni Brasilíu. Skaðinn fyrir menningararf mannkyns er ólýsanlegur og vekur spurningar um öryggismál á söfnum. Hér á landi hefur aðbúnaður Þjóðminjasafnsins til geymslu á gripum sínum batnað mikið á undanförnum árum.

Upptökur með talmáli frumbyggjaættbálka sem nú eru horfnir voru á meðal þess sem hvarf í brunanum í Rio de Jan­eiro. Þessi tungumál munu aldrei heyrast aftur. Myndbönd af siðum og venjum fólks sem hafði alla tíð verið einangrað í frumskógum S-Ameríku eru nú horfin fyrir fullt og allt og jörðin er fátækari staður fyrir vikið. Smám saman er að komast mynd á eyðilegginguna eftir brunann í Brasilíu.

Fjársvelti safnsins hefur verið harðlega gagnrýnt í kjölfar brunans og ljóst að andvaraleysi stjórnvalda var algjört. 

Lengi vel var safnkostur Þjóðminjasafnsins hér á landi dreifður í geymslum víða um borgina. Fyrir tveimur árum tók safnið þó í notkun 4.300 fermetra varðveislu- og rannsóknasetur í Hafnarfirði sem hefur bætt aðstöðu þess til muna en safnið er þó ennþá með geymslur í Kópavogi. Stærstur hluti af heimildum um lífshætti hér á landi er úr efnum sem brotna fremur auðveldlega niður og því er nauðsynlegt að skapa hita- og rakastig í geymslunum sem henta hverri tegund minja. 

„Við erum ekki með öll eggin í sömu körfunni og höfum fengið stuðning af hálfu stjórnvalda til að tryggja þær öryggisaðstæður sem þarf. Það liggur að baki mikil vinna í áratugi og sérstaklega á síðustu árum hvað þetta húsnæði varðar og við getum í fyrsta sinn sagt að allur okkar safnkostur sé að komast í örugga höfn.“ segir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður um öryggismál safnsins.

mbl.is fékk leiðsögn um geymsluna í vikunni en enn er verið að flytja muni þangað og koma þeim fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert