Fríða Björk endurráðin rektor LHÍ

Fríða Björk Ingvarsdóttir hefur verið endurráðin rektor Listaháskóla Íslands til …
Fríða Björk Ingvarsdóttir hefur verið endurráðin rektor Listaháskóla Íslands til næstu fimm ára. Ljósmynd/Gunnar V. Andrésson

Stjórn Listaháskóla Íslands (LHÍ) hefur endurráðið Fríðu Björk Ingvarsdóttur sem rektor Listaháskólans til næstu fimm ára. Samkvæmt stofnskrá skólans má endurráða rektor einu sinni, en rektor heyrir undir stjórn LHÍ og starfar í umboði hennar til fimm ára í senn.

Haft er eftir Magnúsi Ragnarssyni, formanni stjórnarinnar, í fréttatilkynningu að stjórnin fagni þeirri ákvörðun Fríðu Bjarkar að gefa áfram kost á sér. Næstu ár séu skólanum sérlega mikilvæg þar sem unnið sé hörðum höndum að framtíðarskipulagi húsnæðismála og því mikilvægt að samfella sé í starfinu.

Fríða Björk hefur verið rektor Listaháskólans frá árinu 2013. „Síðastliðin fimm ár hafa verið einstaklega ánægjuleg, enda varla til áhugaverðari vinnustaður á sviði lista hér á landi en Listaháskólinn,“ er haft eftir Fríðu Björk, sem kveður skólann standast framsækinni hugmyndafræði samanburðarskóla erlendis fyllilega snúning.

mbl.is