Slökkviliðsfólk atti kappi að Varmá

Meðal þrauta í slökkviliðsbrautinni var að rúlla út slöngu og …
Meðal þrauta í slökkviliðsbrautinni var að rúlla út slöngu og ganga aftur frá henni. mbl.is/Árni Sæberg

„Keppnin var flott, veðrið gott og brautin góð,“ segir Ómar Ágústson, einn skipuleggjenda Landsmóts slökkviliða sem fram fór í dag. Keppt var í nokkrum greinum, en í morgun var golfmót á Bakkakotsvelli og fótbolta- og kraftlyftingamót á íþróttasvæðinu að Varmá í Mosfellsbæ. Eftir hádegi var svo eiginleg slökkviliðskeppni þar sem keppendur fóru í gegn um braut og leystu þrautir sem tengjast starfi slökkviliðsfólks.

Átján tóku þátt í slökkviliðskeppninni frá þremur slökkviliðum: Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Brunavörnum Árnessýslu og Slökkviliði Akureyrar. Hátt í 40 frá ýmsum slökkviliðum tóku þátt í golf- og fótboltamótinu og átta í kraftlyftingum.

Meirihluti slökkviliðskvenna tók þátt

Fimm konur og þrettán karlar öttu kappi í tveimur flokkum í slökkviliðskeppninni, en meirihluti slökkviliðskvenna frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins tók þátt: fjórar af sjö.

Ómari þótti einnig gaman að segja frá því að tveir áhorfendur hafi þreytt slökkviliðsbrautina, ein í kvennaflokki og annar í karlaflokki vegna þess að keppendur voru oddatala. Bæði eru þau makar slökkviliðsfólks og stóðu sig prýðilega, að sögn Ómars.

Ungir sem aldnir skemmtu sér við að fylgjast með að …
Ungir sem aldnir skemmtu sér við að fylgjast með að Varmá í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var góð frumraun. Við erum að rífa þetta í gang aftur, það voru alltaf svona íþróttamót fyrir nokkrum árum en þau hafa legið í dvala,“ segir Ómar og að stefnt sé að því að keppnin verði stærri á næsta ári. „Við ákváðum að byrja þetta viðráðanlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert