Úrkoman lengur samkvæmt nýjum spám

Spákort fyrir föstudag sýnir talsverða úrkomu á Norður- og Norðausturlandi.
Spákort fyrir föstudag sýnir talsverða úrkomu á Norður- og Norðausturlandi. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Úrkoma verður áfram á Norður- og Norðausturlandi fram á aðfaranótt laugardags að því er fram kemur í nýjustu spám Veðurstofu Íslands, en Veðurstofan varaði í dag við vonskuveðri á landinu á miðvikudag og fimmtudag.

Virðist því sem óveðrið muni að nokkru marki ílengjast frá því sem fram kom í dag og að ekki muni stytta upp eða lægja á Norður- og Norðausturlandi fyrr en aðfaranótt laugardags. Í gildi er gul viðvörun frá þriðjudagsmorgni til loka fimmtudags.

Enn er óvissa um braut og dýpt lægðarinnar

Óveðrið lætur fyrst á sér kræla á þriðjudagskvöld þegar hvessa fer. Ákveðin norðaustanátt er nú yfir norðanverðum Vestfjörðum sem færir sig yfir landið í heild sinni aðfaranótt miðvikudags. Kólnar þá smám saman og mörk rigningar og snjókomu færast neðar. 

Úrkoma verður í formi rigningar á láglendi, en slyddu eða snjókomu ofan um 200 metra yfir sjávarmáli, jafnvel ofan 100 metra á Norðausturlandi. Útlit er fyrir að vetraraðstæður skapist á vegum, sér í lagi á fjallvegum. Síðdegis kólnar smám saman og mörk rigningar og snjókomu færast neðar. Vetraraðstæður geta skapast á vegum, sér í lagi á fjallvegum.

Sunnan- og suðvestanlands er ekki spáð úrkomu, en þar geta snarpir vindstrengir við fjöll verið varasamir fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi og lausamunir fokið.

Ástæðan fyrir óveðrinu er djúp lægð austur af landi, en óvissa í spám um braut lægðarinnar og dýpt hennar leiða af sér óvissu um það hve hvasst verður og hve neðarlega mörk rigningar og snjókomu verða. „Engu að síður er norðanóveður af einhverju tagi líklegt,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Svipuð staða uppi á teningnum á fimmtudag

Aðfaranótt fimmtudags og á fimmtudag er búist við norðan- og norðvestanhvassviðri. Á norðurhelmingi landsins er áfram búist við úrkomu, sums staðar í talsverðu magni.

Vegna langvarandi norðanáttar gera spár ráð fyrir aðstreymi af köldu lofti úr norðri og þá lækka mörk rigningar og snjókomju. Úrkoma á norðanverðu landinu verður því væntanlega rigning niður við sjávarmál, en slydda og snjókoma annars staðar. Samgöngutruflanir eru viðbúnar vegna vetraraðstæðna á vegum og hyggilegt er að mati Veðurstofunnar að huga að skjóli fyrir búfénað. 

Á sunnanverðu landinu er ekki spáð úrkomu, en þar geta snarpir vindstrengir verið varasamir fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi og lausamunir geta fokið. Þessu norðanáhlaupi veldur djúp lægð austur af landi. Enn er óvissa í spám varðandi braut lægðarinnar og dýpt hennar og þar með hversu hvasst verður og hve neðarlega mörk rigningar og snjókomu verða. Engu að síður er norðanóveður af einhverju tagi líklegt.

Viðvaranir verða uppfærðar eftir því sem nýir spáreikningar berast og viðvaranir verða nákvæmari og svæðaskiptar þegar dregur nær veðrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert