Aldrei vör við óþarfa eyðslu

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segist aldrei hafa orðið vör við óþarfa eyðslu af hálfu þingsins í störfum sínum í Norðurlandaráði en hún er formaður Íslandsdeildar ráðsins og hefur einnig átt sæti í utanríkismálanefnd í fimm ár.

Þar vísaði hún, undir liðnum störf þingsins, í ræðu Guðmundar Inga Kristinssonar, þingmanns Flokks fólksins, á Alþingi í gær vegna ferðar sjö þingmanna og þriggja aðstoðarmanna á fund velferðarnefndar Norðurlandaráðs á Nuuk á Grænlandi.

Silja Dögg sagði að þingmenn séu ekki látnir gista á fínustu hótelunum, sagði fundarstaðina vel valda og að reynt væri að skipuleggja allt á sem hagkvæmastan hátt.

Hún sagði mörg þeirra réttinda sem séu sameiginleg á Norðurlöndunum eigi rætur sínar að rekja til Norðurlandaráðs og sagði Norðurlandaþjóðirnar deila sameiginlegri sýn á grunngildi eins og mikilvægi mannréttinda, lýðræðis og réttarríkis.

„Ég tel þörf á því að þingmenn ræði meira um norrænt samstarf. Þannig eyðum við tortryggni þeirra sem telja að slíkt samstarf sé aðeins peningasóun.“

„Hvað varð um allt þetta timbur?“

Guðmundur Ingi steig síðar í pontu og sagðist ekki hafa verið að gagnrýna fólkið sem starfi í Norðurlandaráði heldur skipulagið við ferðirnar. „Ég tel að ef ég hefði vitað nákvæmlega um þessa ferð fyrirfram hefði ég aldrei farið í hana,“ sagði hann og spurði hvers vegna hann hafi verið í tvo daga í Nuuq að skoða sig um áður en ráðstefnan hófst, ef skipulagið hafi verið svona gott. „Þarna er hótelkostnaður sem var algjör óþarfi.“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ásamt Ingu Sædal, formanni …
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ásamt Ingu Sædal, formanni flokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann kvaðst hafa trú á því að Silja Dögg sé að gera góða hluti í stjórninni en að breyta þurfi óþörfum kostnaði stjórnvalda. Nefndi hann sem dæmi þegar fólk er sent til Svíþjóðar í mjaðmaaðgerðir og hátíðarhöldin á Þingvöllum í sumar vegna fullveldisafmælis Íslands.

Nefndi hann að 22 milljónir hafi farið í ljós á hátíðinni á Þingvöllum og spurði hvort verkið hafi verið boðið út. Einnig nefndi hann að 40 milljónir hafi farið í smíðakostnað. „Hvað varð um allt þetta timbur?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert