Stjórn OR féllst á ósk Bjarna

Frá stjórnarfundinum í kvöld.
Frá stjórnarfundinum í kvöld. mbl.is/​Hari

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ákvað á fundi sínum í kvöld að fallast á ósk Bjarna Bjarnasonar forstjóra um að stíga til hliðar meðan fram fer óháð úttekt á vinnustaðarmenningu og málefnum tiltekinna starfsmanna sem verið hafa til umfjöllunar.

Í hans stað verður Helga Jónsdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður hjá Eftirlitsstofnun EFTA, starfandi forstjóri um tveggja mánaða skeið, frá næsta mánudegi. Jafnframt samþykkti stjórnin formlega að ráðast í þá úttekt sem einhugur er um að fara þurfi í, að því er segir í tilkynningu.

Stjórn samþykkti samhljóða að verða við ósk Bjarna um að stíga tímabundið til hliðar og að Helga verði starfandi forstjóri um tveggja mánaða skeið, frá mánudeginum 24. september.

Helga hefur gegnt ýmsum opinberum stjórnunarstörfum, verið borgarritari, ráðuneytisstjóri, bæjarstjóri í Fjarðabyggð og nú síðast stjórnarmaður í ESA, Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel. Hún lét af því starfi í lok árs 2017. Helga var varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2010-2011

Helga Jónsdóttir tekur við af Bjarna.
Helga Jónsdóttir tekur við af Bjarna. Ljósmynd/Aðsend

Óháð úttekt

Fyrir fundi stjórnar lá einnig tillaga um að ráðast í óháða úttekt á vinnustaðarmenningu hjá OR og tilteknum starfsmannamálum sem verið hafa til umræðu. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar mun vinna úttektina með utanaðkomandi sérfræðingum á þessu sviði. Var stjórnarformanni falið að ganga frá endanlegu samkomulagi þar um. Úttektin verður tvíþætt; annars vegar á vinnustaðarmenningu og hins vegar á þeim starfsmannamálum sem verið hafa í umræðu. Niðurstöður hennar eiga að liggja fyrir innan þeirra tveggja mánaða sem settur forstjóri er ráðinn til.

„Mjög þakklát stjórninni“

 „Við erum að glíma við vanda sem finnst víða – áreitni á vinnustöðum. Nú tel ég að forsendur hafi skapast fyrir því hér hjá Orkuveitu Reykjavíkur að trúverðug og óháð úttekt verði gerð. Þannig geti starfsmenn fyrirtækisins og eigendur þess treyst því að staða mála hjá OR verði skýrð og öll tækifæri til úrbóta nýtt,“ segir Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar OR, í tilkynningunni.

„Ég er mjög þakklát stjórninni fyrir að taka svo skjótt og með afgerandi hætti á þeim erfiðu verkefnum sem við okkur blasa og Bjarna Bjarnasyni fyrir að skapa svigrúm fyrir þá nauðsynlegu vinnu sem nú er fram undan. Með Helgu höfum við fengið afar traustan einstakling til að halda utan um vinnustaðinn í fjarveru Bjarna. Það er mikilvægt að stjórnin var samhljóða um hennar ráðningu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert