Stjórnarfundur OR hafinn

Þrennt er á dagskrá stjórnarfundar OR.
Þrennt er á dagskrá stjórnarfundar OR. mbl.is/Hari

Stjórnarfundur Orkuveitu Reykjavíkur í höfuðstöðvum fyrirtækisins er hafinn. Þar mun stjórnin fara yfir ósk Bjarna Bjarnasonar forstjóra um að stíga tímabundið til hliðar, en Bjarni situr sjálfur fundinn á meðan erindi hans er tekið fyrir.

Hann mun svo víkja af fundi á meðan hinir dagskrárliðirnir tveir verða teknir fyrir: tillaga um staðgengil Bjarna og formleg úttekt á vinnustaðarmenningu innan Orkuveitu Reykjavíkur.

Forsaga málsins er sú að Áslaugu Thelmu Einarsdóttur, sem starfaði sem forstöðumaður einstaklingsmarkaðar Orku náttúrunnar, var sagt upp störfum. Tveimur dögum síðar var framkvæmdastjóra ON, sem er dótturfyrirtæki OR, Bjarna Má Júlíussyni, sagt upp störfum vegna óviðeigandi framkomu við starfsfólk.

Bjarni, forstjóri OR, sagði í viðtölum sínum við fjölmiðla að um eitt atvik hefði verið að ræða og hafði Bjarni Már sömu sögu að segja. Annað kom hins vegar í ljós þegar Áslaug Thelma tjáði sig opinberlega um málið á Facebook, en að eigin sögn hafði hún margoft kvartað yfir framkomu Bjarna Más í garð starfsfólks ON. Grunar hana að uppsögn hennar hafi tengst kvörtununum, en henni voru ekki gefnar neinar haldbærar skýringar á uppsögninni.

Þá kom fram í færslu hennar að forstjóri og framkvæmdastjóri OR hafi vitað af meintum „galla“ framkvæmdastjórans. Í kjölfarið greindi Bjarni, forstjóri OR, frá því að hann ætlaði að óska eftir því að stíga til hliðar á meðan úttekt á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins færi fram.

Eins og áður segir verður afstaða stjórnar til óskar Bjarna tekin fyrir á fundinum, sem og afstaða stjórnar til úttektar. Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar, sagði í samtali við mbl.is í gær að skoðað yrði að fá óháðan aðila til að fara með úttektina, ef það yki trúverðugleika hennar.

Þá sagði hún að farið yrði yfir mál Áslaugar Thelmu sem hluta af úttektinni, en samkvæmt Áslaugu Thelmu og Einari Bárðarsyni, eiginmanni hennar, hefur enginn frá OR eða ON sett sig í samband við hana síðan henni var sagt upp.

Bjarni Bjarnason forstjóri ásamt Brynhildi Davíðsdóttur, formanni stjórnar.
Bjarni Bjarnason forstjóri ásamt Brynhildi Davíðsdóttur, formanni stjórnar. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert