Umframkostnaður bragga óvenjulegt frávik

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi frávik eru mjög óvenjuleg,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um endurbætur á gömlum bragga við Nauthólsvík í Reykjavík sem hefur farið langt fram úr kostnaðaráætlun, eða um 257 milljónir. Framkvæmdirnar hafa kostað 415 milljónir en verkefninu var úthlutað 158 milljónir. Dagur hefur óskað eftir minnisblaði með útskýringum á þessum mikla kostnaði umfram áætlun.

Hitt frávikið sem Dagur vísar í varðar kostnað við Mathöllina á Hlemmi. Heildarkostnaður við þá framkvæmd varð þrefalt meiri en gert var ráð fyrir í upphafi. Frumkostnaður hljóðaði upp á 107 milljónir króna en heildarkostnaður við Mathöllina er nú 308 milljónir króna, að því er fram kemur í svari skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lagt var fyrir borgarráð í júlí. 

Ákveðin óvissa vegna minjaverndar

Bragginn stendur við Nauthólsveg 100 og ásamt honum standa yfir endurbætur á náðhúsi og skála. Matsölustaður hefur opnað í bragganum og þá verður náðhúsið brátt tekið í notkun sem fyrirlestrarsalur fyrir Háskólann í Reykjavík og frumkvöðlasetur mun opna í skálanum.  

„Það sem er sérstakt þarna er að það var verndum á húsunum þannig að minjaverndarsjónarmið komu við sögu,“ segir Dagur. Húsin þrjú voru reist á fimmta áratug síðustu aldar sem gistihús fyrir fólk sem átti leið um Reykjavíkurflugvöll og er hann álitinn kennileiti og minjar um hernámsárin í Reykjavík.

Dagur segir að þar sem bragginn nýtur verndar í deiliskipulagi borgarinnar var vitað af þeirri óvissu sem gæti fylgt í kjölfarið. „En ég held að enginn sem hafi staðið að afgreiðslunni hafi talið að hún gæti orðið svona mikil.“

Fjallað um umframkostnað í borgarráði á morgun

Kolbrún Baldurdóttir, áheyrnarfulltrúi í borgarráði og borgarfulltrúi Flokks fólksins, hefur óskað eftir upplýsingum um umframkostnað vegna málsins og verður það tekið fyrir á fundi borgarráðs á morgun. „Við munum fara yfir greiningu á þessu og gera þær upplýsingar opinberar í kjölfarið,“ segir Dagur.

Aðspurður hvort engir verkferlar séu hjá borginni þegar framkvæmdir fara umfram áætlun þegar kemur að kostnaði segir Dagur: „Við eigum að vera með skýra verkferla um það og það er eitt af því sem við munum fara yfir í borgarráði á fimmtudaginn.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert