Snjóar til morguns fyrir norðan

Svona er umhorfs í Víkurskarði að því er sjá má …
Svona er umhorfs í Víkurskarði að því er sjá má úr vefmyndavél Vegagerðinnar. Ljósmynd/Vegagerðin

Það kemur til með að snjóa meira og minna í dag og til morguns á Norður- og Norðausturlandi að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar. Einkum á fjallvegum, en það er heldur kólnandi og þar með lækkandi frostmarkshæð. Krap og snjór einnig á láglendi á utanverðum Tröllaskaga.  

Hálka og éljagangur er á Þverárfjalli en hálka á Möðrudalsöræfum. Hálkublettir eru á flestum fjallvegum á Vestfjörðum. Hálkublettir eru á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku, eins eru hálkublettir á Vatnsskarði.  Krapi er á Hólasandi, Mývatnsöræfum og Fjarðarheiði, krapi og éljagangur er á Víkurskarði. Hálkublettir og éljagangur eru á Siglufjarðarvegi frá Ketilás í Dalvík, að því er segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Svona er umhorfs á Þverárfjallsvegi.
Svona er umhorfs á Þverárfjallsvegi. Ljósmynd/Vegagerðin

Búast má við að færð gæti farið að þyngjast á hálendisvegum og þá sérstaklega á norðanverðu landinu.

Í dag er unnið að því að malbika axlir á Reykjanesbraut, milli Straumsvíkur og Hvassahrauns. Þrengt verður að umferð og umferðarhraði tekinn niður fram hjá vinnusvæðinu. Búast má við einhverjum umferðartöfum. Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir milli kl. 08:00 og kl. 22:00.

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin sem eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

Nánar á vef Vegagerðarinnar.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is