Athugasemdir við menntunar- og hæfniskröfur

Veitur ohf. er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.
Veitur ohf. er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

Stjórn Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) hefur sent skriflegar athugasemdir í bréfi til stjórnar Veitna ofh. vegna auglýsingar um lausar stöður forstöðumanna hjá Veitum. VFÍ telur menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar eru til starfanna ekki nægilega miklar og óskar eftir skýringum á því af hverju sérfræðiþekkingu og háskólamenntun á sviði verkfræði sé gert svo lágt undir höfði.

Veitur ohf. hafa leita að umsóknum fyrir fjórar stöður forstöðumanna hjá fyrirtækinu. Um er að ræða forstöðumann rafveitu, forstöðumann vatnsveitu, forstöðumann stefnu og árangurs, og forstöðumann fráveitu. 

VFÍ gerir athugasemdir við menntunar- og hæfniskröfur vegna starfa forstöðumanns stefnu og árangurs, vatnsveitu og fráveitu en ekki við kröfur fyrir starf forstöðumanns rafveitu þar sem var krafist sérfræðiþekkingar.

Tæknileg innsýn frekar en sérfræðiþekking

„Hafa verður í huga að þessir einstaklingar eiga að leiða uppbyggingu og viðhald, tækniþróun og nýsköpun í mikilvægum innviðum samfélagsins. Ekki er gerð krafa um menntun á sviði verkfræði eða tæknifræði eða reynslu á því sviði,“ segir í bréfinu frá VFÍ og vísað til auglýsingarinnar þar sem segir:

„Tæknileg innsýn skiptir máli en sérfræðiþekkingar ekki krafist.“

Þá segir í bréfinu að aðrar menntunar- og hæfniskröfur beri allar að sama brunni og séu huglægar og lítt mælanlegar. Þannig eigi til dæmis forstöðumaður vatnsveitu að „leiða teymi sérfræðinga og bera ábyrgð á framtíðarsýn, afkomu og arðsemi veitunnar ásamt því að sinna nýsköpun á þróun.“

VFÍ segir erfitt að sjá hvernig því hlutverki verði sinnt án sérfræðiþekkingar sem byggir á grunni viðurkenndrar háskólamenntunar í tæknifræði eða verkfræði. 

„Það er einnig illskiljanlegt hvers vegna er ekki horft til mikilvægis verkfræðilegrar þekkingar, sem segja má að hafi verið lykilstefið í framþróun hjá OR og forverum fyrirtækisins. Nægir að benda á nýtingu jarðhitans í því sambandi,“ segir í bréfinu sem Páll Gíslason, formaður VFÍ, skrifar undir fyrir hönd stjórnar félagsins.

Þá er að lokum óskað eftir skýringum á því af hverju sérfræðiþekkingu og háskólamenntun á sviði verkfræði sé gert svo lágt undir höfði.

Uppfært 21.09.2018 kl. 13:58.

Í skriflegu svari til mbl.is staðfestir Guðrún Erla Jónsdóttir, stjórnarformaður Veitna ohf., að henni hafi borist bréf með athugasemdum Verkfræðingafélags Íslands og að hún muni leggja bréfið fyrir á næsta stjórnarfundi.

Hún tekur þó fram að starfsmannamál Veitna séu ekki á forræði stjórnar og hefur hún því vísað erindinu til framkvæmdastjóra Veitna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert