Rými fært frá bílum aftur til fólksins

Silvia Casorrán hefur starfað sem ábyrgðarmaður hjólreiðamála í Barcelona undanfarið.
Silvia Casorrán hefur starfað sem ábyrgðarmaður hjólreiðamála í Barcelona undanfarið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir tveimur árum var ákveðið að ráðast í nokkuð róttækar breytingar á skipulagi á hluta Eixample-svæðisins í Barcelona og fékk verkefnið nafnið „superblocks“. Götur sem áður höfðu aðallega verið fyrir bílaumferð var breytt þannig að áherslan var sett á gangandi og hjólandi umferð. Bekkir, leikvellir og kaffiborð voru fljótlega sett út á svæði sem áður höfðu verið gatnamót. Þrátt fyrir talsverð mótmæli í upphafi eru  íbúar í dag flestir sáttir með breytinguna og borgin skoðar nú að útfæra þetta kerfi mun víðar.

Eixample-svæðið er þekkt fyrir ferningslaga skipulag sitt (í raun átthyrningslegt) þar sem hver byggingarreitur er byggður upp með húsalengjum á alla fjóra kanta og í kringum hvern og einn liggja götur. Umferð þar, eins og víðar í Barcelona, hefur lengi verið mjög mikil, enda þéttbýlt svæði.

Silvia Casorrán hefur undanfarið gegnt stöðu ábyrgðarmanns hjólreiðamála í Barcelona og komið að breytingunni sem nefnd er hér að ofan. Hún er nú stödd hér á landi til að taka þátt í ráðstefnunni Hjólum til framtíðar sem fram fer í félagsheimilinu á Seltjarnarnesi í dag.

„Nú viljum við reyna að setja fólkið aftur í miðjuna“ 

Í samtali við mbl.is segir Silvia að hugmyndin með breytingunni hafi verið að taka rými frá bílum og gefa það aftur til fólksins. „Borgir í dag líta út eins og bílar hafi alltaf verið þar, en það var ekki alltaf þannig. Nú viljum við reyna að setja fólkið aftur í miðjuna,“ segir hún og á þá bókstaflega við að setja fólkið í miðjuna, því með því að takmarka eða taka alveg bílaumferðina í burtu frá gangandi og hjólandi til að nýta miðjusvæðið á götunum sem áður var hugsað fyrir bíla.

Í fyrstu tilrauninni var ákveðið að taka níu samliggjandi reiti (3x3) og breyta þeim í samræmi við hugmyndafræðina og úr varð svokallað „superblock“ þar sem bílaumferð var mjög takmörkuð innan svæðisins. Bílaumferð var aðallega leyft að keyra inn meðfram einum reit, en þurfa svo að beygja strax til hægri og aftur hægri þannig að endað var að nýju á breiðgötunni fyrir utan þetta nýja svæði. Með þessu er meðal annars opið fyrir vöruflutninga og leigubíla inn á svæðið, en komið í veg fyrir gegnumakstur sem áður var.

Leikvellir og bekkir í staðinn fyrir götur

Bendir hún á að götur í Eixample séu að jafnaði um 20 metra breiðar. Áður fyrr hafi verið um 5 metra gangstéttir hvor sínu megin við göturnar og þær því um 10 metra breiðar. Þegar ákveðið var að ráðast í „superblocks“ verkefnið árið 2016 hafi verið dregið mikið úr rými fyrir bílana og hafi það helmingast á mörgum götum og jafnvel horfið alveg sums staðar. „Fyrir utan svæðið er umferð en fyrir innan er félagslífið,“ segir Silvia. Þegar horf er til bílastæða og annarra mannvirkja fyrir bíla er hugmyndin að minnka svæði sem helgað er bílum úr 73% af heildarsvæði gatna í 23%. 

Í dag segir hún að það séu komnir leikvellir, borðtennisborð og bekkir þar sem áður voru götur. Í fyrstu hafi fólk þó ekki verið of bjartsýnt á breytingarnar. Reyndar mótmæltu margir fyrirhuguðum breytingum þegar hugmyndin var kynnt. Vildu margir hverjir ekki missa bílastæði og pláss undir bíla. Reyndin í dag er hins vegar að flestir séu sáttir og huga borgaryfirvöld í Barcelona nú á að fjölga til muna hverfum sem þessum. Í vor var meðal annars annað svipað hverfi opnað á Eixample-svæðinu, en þar er þó aðeins um að ræða 2x2 svæði, en ekki 3x3 eins og á þessu fyrsta.

Hér má sjá superblocks-hugmyndafræðina. Vinstra megin er staðan fyrir breytingar, …
Hér má sjá superblocks-hugmyndafræðina. Vinstra megin er staðan fyrir breytingar, en hægra megin eftir þær. Skjáskot/Urban Mobility Plan of Barcelona 2013-2018

Fyrstu mánuðirnir eftir að breytingarnar voru gerðar segir Silvia að margir hafi verið fullir efasemda. Bílarnir voru farnir, en ekkert kom í raun í staðinn. Eftir nokkra mánuði hafi hins vegar bæði borgin og fólk í nágrenninu tekið sig til og sett sem fyrr segir bekki og annað sem dregur að sér fólk. Þá hafi börn fljótlega verið farin að leika sér á götunum og í dag séu þær fullar af mannlífi.

Gæti gengið upp hér með takmörkunum

Spurð hvort hugmyndafræði sem þessi gæti gengið upp hér á landi með tilliti til verra veðurfars segir Silvia að þetta sé hægt alls staðar. Hins vegar séu meiri takmarkanir eftir því sem veðrið er verra og fólk sé minna úti saman. Hún nefnir þó sérstaklega að hægt sé að gera þetta í miðbænum og þar sem þéttar er búið. Það þurfi ekki endilega að vera jafnfastmótað og í Barcelona þar sem um sé að ræða jafnstóra reiti, heldur geti þetta verið ílöng svæði, ferningslaga eða kringlótt svo dæmi séu tekin. Þá segir hún að svona svæði ýti undir hjólandi og gangandi umferð og búi til öryggi fyrir börn og eldra fólk sem keyri ekki bíla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert