Hætt við ráðningu skrifstofustjóra

mbl.is/Ófeigur

Tekin hefur verið ákvörðun um að hætta við ráðningu skrifstofustjóra á skrifstofu matvæla og landbúnaðar í atvinnuvegaráðuneytinu. Samtals sóttu 26 manns um starfið og hafði hæfisnefnd verið við störf við að leggja mat á umsækjendur.

Fram kemur í bréfi ráðuneytisins til umsækjenda í gær að eftir að ráðningarferlið hófst hafi skipulagsbreytingar verið til umfjöllunar innan þess með það að markmiði að „efla stjórnun og samhæfingu, jafna álag og bæta nýtingu starfsfólks.“

Tekin hafi verið ákvörðun um að sameina skrifstofuna undir stjórn skrifstofustjóra skrifstofu alþjóðamála. jafnframt hafi verið ákveðið að ráðast í vinnu við frekari skipulagsbreytingar á næstunni. Fyrir vikið hafi verið hætt við ráða í starfið.

Fjallað er um málið á fréttavef Bændablaðsins en samkvæmt heimildum þess var búið að taka nokkra umsækjendur í viðtal og hæfisnefndin búin að skila Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, greinargerð sinni.

Haft er eftir Sindra Sigurgeirssyni, formanni Bændasamtakanna, að um vonbrigði sé að ræða og hann hafi miklar áhyggjur af stöðu mála í atvinnuvegaráðuneytinu. Þannig hafi tveir reynslumiklir starfsmenn ráðuneytisins á sviði landbúnaðarmála nýverið hætt störfum sem hafi veikt stjórnsýslu landbúnaðarmála. 

„Við finnum það sem erum í reglulegum samskiptum við ráðuneytið að þar eru alltof fáir starfsmenn. Það er slæmt fyrir hagsmuni landbúnaðarins,“ segir hann ennfremur. Sameining skrifstofanna undir skrifstofustjóra alþjóðamála hljómi undarlega.

„Það sýnir kannski forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að hún vill koma landbúnaðinum fyrir í skúffu á alþjóðasviði sjálfs atvinnuvegaráðuneytisins,“ segir Sindri. Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, hefur óskað eftir fundi í atvinnuveganefnd vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert