Hrunið ól af sér marga flokka

Þúsundir manna komu saman á Austurvelli haustið 2010. Skuldamálin voru …
Þúsundir manna komu saman á Austurvelli haustið 2010. Skuldamálin voru erfið. mbl.is/Júlíus

Bankahrunið haustið 2008 er einn áhrifamesti atburður lýðveldistímans. Á tíu ára afmæli hrunsins er því við hæfi að nefna dæmi um hvernig hrunið setti mark sitt á stjórnmálin og efnahagslífið.

Hrunið hafði mikil áhrif á íslensk stjórnmál. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fór frá völdum 26. janúar 2009 með því að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt.

Samstarf við AGS

Hafði sú stjórn þá meðal annars hafið samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og stofnað embætti sérstaks saksóknara. Hvort tveggja voru viðbrögð við hruninu. Um neyðarlögin, yfirtöku ríkisins á bönkunum og mótmæli við Austurvöll þarf ekki að hafa mörg orð. Samfylkingin horfði til vinstri og myndaði minnihlutastjórn með VG og Framsóknarflokki.

mbl.is/Júlíus

Nokkrum vikum síðar leit nýtt stjórnmálaafl, Borgarahreyfingin, dagsins ljós, en eins og Margrét Tryggvadóttir rekur í bók sinni Útistöður var flokkurinn skilgetið afkvæmi hrunsins.

Samfylkingin og VG fengu rétt ríflega helming atkvæða í þingkosningunum í apríl 2009. Saman mynduðu flokkarnir fyrstu hreinu vinstristjórnina á lýðveldistímanum.

Forysta VG var búin að fallast á að sótt yrði um aðild að ESB en naut ekki til þess stuðnings þingflokksins. Umsóknin reyndist flokknum og pólitíkinni afdrifarík.

Reyndu mikið á VG

Umsóknin og deilur um önnur grundvallarmál leiddu til þess að þrír þingmenn VG gengu úr flokknum á kjörtímabilinu. Meðal annars reyndust aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar, Icesave-samningarnir og samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn flokknum erfiðar.

Tveir nýir flokkar, Borgarahreyfingin og Lýðræðishreyfingin, buðu fram í þingkosningunum 2009.

Eftir efnahagshrunið urðu mótmæli fjölmennari og tíðari. Sum þróuðust út …
Eftir efnahagshrunið urðu mótmæli fjölmennari og tíðari. Sum þróuðust út í árásir á lögreglu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Borgarahreyfingin var að stofni til samsett úr tveimur hópum. Annars vegar skipuleggjendum á opnum borgarafundum í Iðnó og Háskólabíói og hins vegar úr hópi sem hafði fundað um þjóðfélagsmál í Reykjavíkurakademíunni. Lýðræðishreyfingin, með Ástþór Magnússon forsetaframbjóðanda í fararbroddi, bauð fram en náði ekki á þing.

Borgarahreyfingin fékk fjóra þingmenn kjörna í þingkosningunum. Brestir komu snemma fram í flokksstarfinu. Þegar frumvörp um Icesave og ESB-umsóknina komu inn í þingið samtímis vildu þrír þingmanna flokksins skilja að málin tvö. Þau væru enda tengd. Þrýstingur væri á að ljúka Icesave-málinu svo umsóknarferlið gæti hafist hjá ESB.

Ágreiningur upp á yfirborðið

Þráinn Bertelsson gekk úr Borgarahreyfingunni sumarið 2009 og varð óháður þingmaður. Um haustið stofnuðu hinir þrír þingmenn flokksins Hreyfinguna. Ágreiningur milli þeirra tveggja hópa sem stóðu að Borgarahreyfingunni í upphafi hafði brotist upp á yfirborðið.

Nýr flokkur, Besti flokkurinn, leit dagsins ljós í sveitarstjórnarkosningunum 2010. Flokkurinn fékk mest fylgi allra flokka í Reykjavík, myndaði meirihluta með Samfylkingu og varð oddviti flokksins, Jón Gnarr, borgarstjóri. Skuldavandi Orkuveitu Reykjavíkur, sem tengdur var við hrunið, var meðal helstu málefna kosningabaráttunnar. Raunar glímdu sveitarstjórnir um allt land við erfiða skuldastöðu.

Systurflokkur Besta flokksins, Næstbesti flokkurinn, varð þriðji stærsti flokkurinn í Kópavogi.

Nýtt stjórnmálaafl, Hægri grænir, var stofnað sumarið 2010. Formaður flokksins, Guðmundur Franklín Jónsson, hafði verið áberandi í umræðu um Icesave-deiluna.

Skuldavandinn í algleymingi

Um haustið 2010 var efnt til fjöldamótmæla á Austurvelli á ný. Skuldavandi heimilanna var í algleymingi og þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave reyndist ríkisstjórninni erfið. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafði virkjað málskotsréttinn í annað sinn á lýðveldistímanum. Verulega hafði dregið úr stuðningi við ríkisstjórnina og ræddu trúnaðarmenn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra við hana um að stíga til hliðar. Hún sat hins vegar út kjörtímabilið. Lyktir stjórnarskrármálsins urðu henni þungbærar, líkt og fjallað er um í heimildamyndinni Jóhanna – síðasta orrustan.

Um haustið 2010 var efnt til fjöldamótmæla á Austurvelli á …
Um haustið 2010 var efnt til fjöldamótmæla á Austurvelli á ný. Skuldavandi heimilanna var í algleymingi og þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave reyndist ríkisstjórninni erfið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

VG fékk liðsstyrk í september 2010 er Þráinn Bertelsson gekk í flokkinn. Vorið 2011 gengu þau Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason úr þingflokki VG. Með því var formlegur þingstyrkur ríkisstjórnarinnar farinn úr 35 í 32 sæti, sem er minnsti mögulegi meirihluti á Alþingi.

Stjórnlagaráð skilaði tillögu að stjórnarskrá sumarið 2011. Meðferð þingsins á tillögunum átti síðar þátt í stofnun nýrra framboða. Gjáin í VG breikkaði 30. desember sama ár þegar Jón Bjarnason hætti sem sjávarútvegsráðherra. Við það tilefni sagði Jón fulltrúa ESB í Brussel fagna brotthvarfi sínu.

Árni Páll Árnason hvarf líka úr ríkisstjórn. Ólga í Samfylkingunni kom upp á yfirborðið á hitafundi 30. desember. Deilurnar birtust síðar í atlögu gegn Árna sem formanni.

Reiddu sig á Hreyfinguna

Með þessum atburðum þurfti vinstristjórnin í vaxandi mæli að reiða sig á stuðning annarra þingflokka. Þá fyrst og fremst Hreyfingarinnar. Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, fjallaði um þau hrossakaup í bók sinni Ár drekans, sem lýsir árinu 2012 í íslenskum stjórnmálum. Meðal annars gerði Hreyfingin kröfur í stjórnarskrármálinu gegn því að styðja ríkisstjórnina í tilteknum málum.

Deilurnar innan ríkisstjórnarflokkanna, og fylgishrun þeirra, sköpuðu tækifæri fyrir aðra flokka.

Björt framtíð var stofnuð í febrúar 2012 og lagði áherslu á samræðu og bætta stjórnmálamenningu.

Um líkt leyti mældist Samstaða, flokkur Lilju Mósesdóttur, með rúmlega 20% fylgi í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Það fjaraði hins vegar hratt undan flokknum sem leið undir lok.

Píratahreyfingin stofnuð

Vorið 2012 var haldinn stofnfundur Dögunar. Tveir þingmenn Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, voru meðal stofnenda. Þar voru líka innanborðs stjórnlagaráðsmenn með Þorvald Gylfason í broddi fylkingar. Sá armur stofnaði síðan Lýðræðisvaktina. Haustið 2012 var stofnfundur Pírata sem boðuðu breytta stjórnmálamenningu. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar og svo Hreyfingarinnar, stóð þar í stafni.

Hreyfingin starfaði fram til þingkosninga 2013 en var lögð niður þá um haustið. Horfðu fulltrúar nýju flokkanna meðal annars til góðs árangurs Besta flokksins í sveitarstjórnarkosningunum 2010.

Tveir dómar höfðu senn pólitísk áhrif og mörkuðu þáttaskil.

Geir H. Haarde var sýknaður af þremur ákæruliðum af fjórum fyrir landsdómi í apríl 2012 en ekki gerð refsing fyrir þann fjórða. Höfðu málaferlin aukið sundrungu á þingi.

Geir H. Haarde var sýknaður af þremur ákæruliðum af fjórum …
Geir H. Haarde var sýknaður af þremur ákæruliðum af fjórum fyrir landsdómi í apríl 2012 en ekki gerð refsing fyrir þann fjórða. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Með dómi EFTA-dómstólsins í Icesave-deilunni í janúar 2013 lauk einni erfiðustu milliríkjadeilu Íslandssögunnar með sigri Íslands.

Skammt var til kosninga og styrkti dómurinn stöðu Framsóknarflokksins og formannsins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem boðaði að eftir Icesave væri komið að heimilunum. Kosningaloforð hans um leiðréttingu á verðtryggðum skuldum heimila fékk hljómgrunn. Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Sjö nýir flokkar

Sjö nýir flokkar voru stofnaðir í aðdraganda þingkosninganna 2013, að Pírötum og Dögun meðtöldum. Að auki komu fram smærri framboð, líkt og í öðrum kosningum eftir hrunið. Eitt einkenni eftirhrunsáranna er einmitt fjöldi framboða og frambjóðenda. Til dæmis voru níu frambjóðendur á kjörseðlinum í forsetakosningunum 2016 og annar eins fjöldi hætti við framboðið.

Jón Bjarnason sat á þingi fyrir VG til þingloka en stofnaði svo ásamt öðrum flokkinn Regnbogann, sem barðist gegn ESB-aðild. Þá var Þorvaldur Þorvaldsson, fyrrverandi félagi í VG, meðal stofnenda Alþýðufylkingarinnar. Deilur innan VG birtust jafnframt í því að Steingrímur J. Sigfússon lét af formennsku í flokknum. Við tók Katrín Jakobsdóttir, núverandi forsætisráðherra.

Að auki buðu þrjú framboð, Landsbyggðarflokkurinn, K-listi Sturlu Jónssonar og Húmanistaflokkurinn fram en náðu ekki á þing. Landsbyggðarflokkurinn var nýr flokkur en fulltrúar hinna tveggja flokkanna höfðu boðið fram áður.

Fimm fulltrúar stjórnlagaráðs komu að stofnun nýs flokks, Lýðræðisvaktarinnar, fyrir þingkosningarnar 2013. Formaður var Þorvaldur Gylfason. Ágreiningur reis upp innan flokksins sem lauk með því að Pétur Gunnlaugsson útvarpsmaður stofnaði Flokk heimilanna ásamt öðrum. Áður höfðu fulltrúar Lýðræðisvaktarinnar sagt skilið við Dögun. Ágreiningur um verðtryggingu átti þátt í þeim klofningi.

Dögun, Regnboginn, Alþýðufylkingin, Lýðræðisvaktin og Flokkur heimilanna komu ekki mönnum á þing. Sama gilti um Hægri græna. Alls fengu flokkarnir sex 11,5% atkvæða í kosningunum 2013, sem var meira en VG og 1,4% minna en Samfylkingin. Hreyfingin var sem áður segir lögð niður um haustið.

Áfangi í skuldamálum

Leiðréttingin varð að veruleika í nóvember 2014. Höfðu þá þegar gengið dómar í Hæstarétti í svonefndum gengislánamálum. Reyndist þetta tvennt vera stór skref í uppgjöri á skuldavanda heimila. Hann varð upp frá því ekki lengur meiriháttar kosningamál.

Vorið 2016 komu tveir nýir flokkar formlega fram á sjónarsviðið, Flokkur fólksins og Viðreisn.

Fyrrverandi áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum voru fremstir í flokki við stofnun Viðreisnar. Ágreiningur um ESB-umsóknina átti þátt í stofnun flokksins. Má því segja að ESB-umsóknin hafi leitt til klofnings innan Borgarahreyfingarinnar, VG og Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu og þannig átt þátt í stofnun minnst þriggja nýrra flokka. Þá átti ágreiningur um ESB-málið þátt í úrsögn Guðmundar Steingrímssonar úr Framsóknarflokknum og þar með stofnun Bjartrar framtíðar. ESB-umsóknin og skuldavandi heimila eru þau tvö mál sem höfðu sennilega mest pólitísk áhrif eftir hrunið. Reyndist afdrifaríkt fyrir vinstristjórnina að efna ekki til þjóðaratkvæðis um ESB-umsóknina og að halda stjórnarandstöðunni utan við samninga í Icesave-deilunni. Hvort tveggja gróf undan einingu í stjórninni fyrstu vikur sumars 2009 og færði andstæðingum hennar vopn í hendur.

Flokkur fólksins var sem áður segir stofnaður vorið 2016 og barðist meðal annars fyrir bættum kjörum lágtekjuhópa og öryrkja. Var vísað til skerðinga á bótum eftir hrunið.

Lekamál leiða til afsagna

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sat ekki út kjörtímabilið. Vorið 2016 birtust gögn sem lekið var frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama. Birtust þar með annars upplýsingar um félagið Wintris, sem var um hríð skráð á Sigmund Davíð og eiginkonu hans. Leiddu þessar upplýsingar og viðbrögðin við þeim til fjöldamótmæla á Austurvelli og í kjölfarið til afsagnar Sigmundar Davíðs. Fyrr á kjörtímabilinu hafði Hanna Birna Kristjánsdóttir sagt af sér sem ráðherra vegna lekamálsins svokallaða. Bæði málin eru án fordæma á Íslandi.

Frá mótmælum á Austurvelli í tengslum við umfjöllun fjölmiðla um …
Frá mótmælum á Austurvelli í tengslum við umfjöllun fjölmiðla um Panamaskjölin svonefndu. mbl.is/Golli

Mótmælin vorið 2016 komu í kjölfar fjöldamótmæla haustið 2010 og svo auðvitað svonefndrar búsáhaldabyltingar haustið 2008 og vorið 2009. Með henni varð til ný mótmælahefð. Tíminn mun þó skera úr um hvort hún mun reynast varanleg. Eftir afsögn Sigmundar Davíðs var kosningum flýtt. Við tók ein skammlífasta ríkisstjórn lýðveldistímans, sem Sjálfstæðisflokkurinn og tveir ungir flokkar, Björt framtíð og Viðreisn, mynduðu.

Höfðu fulltrúar Pírata, Samfylkingar, VG og Bjartrar framtíðar þá brotið blað í íslenskum stjórnmálum fyrir kosningarnar með því að funda opinberlega um mögulegt samstarf í ríkisstjórn. Fylgistap Pírata og VG á síðustu metrunum veikti þær vonir. Vakti fylgisaukning Pírata í aðdraganda kosninganna alþjóðlega athygli og komu hingað fleiri erlendir blaðamenn en venja er fyrir kosningar.

Önnur ríkisstjórn fellur

Um níu mánuðum eftir að skrifað var undir stjórnarsáttmálann sleit Björt framtíð stjórnarsamstarfinu. Tilefnið var birting upplýsinga um veitingu uppreistar æru til manna sem höfðu brotið gegn börnum. Höfðu þau mál þá lengi verið í kerfinu og komið til kasta margra ráðherra.

Boðað var til kosninga og stofnaði Sigmundur Davíð nýjan flokk, Miðflokkinn, í aðdraganda þeirra.

Eftir kosningarnar tók við flókin stjórnarmyndun. Niðurstaðan var að mynda ríkisstjórn frá hægri til vinstri með Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokki og VG innanborðs. Björt framtíð féll af þingi.

Þetta er fyrsta ríkisstjórnin frá tímum Nýsköpunarstjórnarinnar sem er með Sjálfstæðisflokk óskiptan og sósíalista innanborðs. Það var viðleitni til brúarsmíði eftir harðvítugt sundrungarskeið og margs konar óstöðugleika eftirhrunsáranna.

Sjálfstæðisflokkur, VG, Samfylkingin, Miðflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Píratar og Flokkur fólksins fengu menn kjörna á þing. Það voru fleiri flokkar en nokkru sinni frá lýðveldisstofnun. Raunar munaði litlu að Píratar féllu af þingi.

Fylgið er hreyfanlegra

Fylgisaukning Flokks fólksins síðasta sólarhringinn fyrir kjördag þótti vitna um hreyfingu á fylgi.

Eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor átti nýr flokkur, Sósíalistaflokkur Íslands, borgarfulltrúa í Reykjavík. Staða fólks sem fór illa út úr húsnæðiskreppunni, og stendur nú höllum fæti á leigumarkaði, var flokksmönnum hugleikin. Það er óleyst mál sem kann að finna sér skýrari pólitískan farveg næstu ár.

Sextán framboð voru á kjörseðlinum í Reykjavík. Átta framboð náðu inn manni. Þessi fjöldi endurspeglar pólitískan óróa síðustu ára.

Formenn stærstu flokkanna í myndveri RÚV á kosningavökunni í október …
Formenn stærstu flokkanna í myndveri RÚV á kosningavökunni í október 2017. mbl.is/Eggert

Eftir þingkosningarnar í fyrrahaust ræddu fræðimenn um minnkandi flokkshollustu og að fylgið færðist meira milli flokka en áður. Vantraust á stjórnmálin gæti þar haft áhrif en það jókst eftir hrunið. Hafa verið færð rök fyrir því að nýir fjölmiðlar hafi áhrif í þessu efni.

Mörkuðu ekki djúp spor

Kaflaskil urðu hjá Pírötum í apríl síðastliðnum er Birgitta Jónsdóttir yfirgaf flokkinn. Höfðu þingmenn Pírata átt í innbyrðis deilum.

Flestir nýju flokkanna sem urðu til eftir hrunið eru ýmist horfnir af stjórnmálasviðinu eða settu óverulegt mark á stjórnmálin. Svonefndur fjórflokkur er nú með þrjá flokka í ríkisstjórn og sá fjórði mælist nú annar stærsti flokkur landsins í skoðanakönnunum. Píratar eru eini flokkurinn á þingi sem telja má afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar. Miðflokkurinn og Viðreisn urðu til eftir klofning í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki og Flokkur fólksins hefur notið góðs af vinsældum formannsins, Ingu Sæland.

Baráttumenn gegn Icesave-samningunum höfðu fullnaðarsigur með dómi EFTA-dómstólsins. Þá markaði leiðréttingin kaflaskil í umræðu um skuldavanda heimilanna og ríkisstjórn Framsónarflokksins og Sjálfstæðisflokksins aflétti fjármagnshöftum. Hins vegar lauk baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá og inngöngu í ESB með ósigri þeirra afla. Róttækar kröfur varðandi verðtryggingu og fiskveiðistjórnunarkerfið náðu ekki fram að ganga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »