Andlát: Hilmar Rósmundsson skipstjóri

Hilmar Rósmundsson .
Hilmar Rósmundsson .

Hilmar Rósmundsson, fyrrverandi skipstjóri og útgerðarmaður, lést á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum 10. október, tæplega 93 ára að aldri.

Hilmar fæddist á Siglufirði 16. október 1925 og var sonur hjónanna Rósmundar Guðnasonar sjómanns og Maríu Jóhannsdóttur húsfreyju.

Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Siglufirði og fiskimannaprófi hinu meira frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1950. Hilmar var skipstjóri á fiskiskipum frá 1955 og útgerðarmaður frá árinu 1959.

Hilmar fór árið 1960 í útgerð með þáverandi mági sínum Theódóri Snorra Ólafssyni. Þeir keyptu Sigrúnu, 50 tonna bát, og nefndu hann Sæbjörgu. Bátinn misstu þeir 1964 þegar óstöðvandi leki kom að honum í róðri. Þá keyptu þeir Sigurfara frá Akranesi og nefndu hann einnig Sæbjörgu. Hilmar var aflakóngur Vestmannaeyja árin 1967 og 1968. Árið 1969 var Sæbjörg VE aflahæsti bátur landsins með 1.655 tonn.

Hilmar var alla tíð ötull félagsmálamaður. Hann sat í stjórn Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi í Vestmannaeyjum, var í Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja og framkvæmdastjóri þess um árabil. Einnig sat hann í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og var varamaður í bankaráði Útvegsbanka Íslands hf. Þá sat Hilmar í stjórn Norðlendingafélagsins í Vestmannaeyjum. Hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurlandskjördæmi og tók sæti á Alþingi haustið 1978. Hilmar var heiðraður ásamt fleiri öldruðum sjómönnum af Sjómannadagsráði Vestmannaeyja á sjómannadeginum 1998.

Hilmar kvæntist Rósu Snorradóttur (f. 1927, d. 2015) árið 1950. Þau slitu samvistir 1986. Eftirlifandi dætur þeirra eru Hafdís Björg og Sædís María.

Útför Hilmars fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 27. október klukkan 13.00.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert