Callum fer hratt yfir

Síðdegis í dag fer að gæta áhrifa frá nýrri lægð, Callum, sem fer hratt yfir Bretlandseyjar með tilheyrandi roki og rigningu. Veðurfræðingur segir að sem betur fer hafi Callum ekki mikil áhrif hér en heldur bæti í vind í kvöld og það fer að rigna um suðaustanvert landið.

„Það stefnir í tíðindalítið veður um helgina, hvorki mikill vindur né úrkoma. Í dag spáir austlægum vindi og úrkomulitlu veðri um allt land. Stöku skúrir S- og V-til í fyrstu, en víða bjart fyrir norðan. Hiti 3 til 10 stig. 

Síðdegis gætir áhrifa frá nýrri lægð sem fer hratt yfir og veldur þó nokkrum vindi og úrkomu víða á Bretlandseyjum í dag og hafa þeir nefnt hana Callum. Sem betur fer eru áhrifin frá henni ekki mikil hjá okkur en vindurinn snýst í norðaustlægari átt síðdegis og bætir heldur í vindinn um landið SA-vert og byrjar að rigna þar í kvöld. 

Á morgun verður vestlægari vindur með lítils háttar vætu víða um land, en líkur á þurru veðri sunnanlands fram yfir hádegi. Það kólnar í veðri, einkum fyrir norðan þar sem úrkoman verður rigning eða slydda,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðaustlæg átt 5-13 m/s með morgninum, skýjað með köflum og úrkomulítið, en víða bjart N-lands. Snýst í norðaustan 5-15 m/s síðdegis, hvassast með SA-ströndinni. Rigning A-ast í kvöld og stöku skúrir NV-til. Hiti 3 til 10 stig.
Norðvestan og vestan 5-13 m/s á N-verðu landinu á morgun með dálítilli rigningu eða slyddu. Suðvestlægari sunnan til, að mestu skýjað og skúrir síðdegis. Hiti 1 til 7 stig, mildast með S-ströndinni.

Á laugardag:

Norðvestan og vestan 5-10 m/s á N-verðu landinu með rigningu á köflum, en slyddu til fjalla. Suðvestlægari sunnan til, skýjað og skúrir síðdegis. Hiti 1 til 7 stig, mildast SA-til. 

Á sunnudag og mánudag:
Hæg suðlæg átt, skýjað með köflum og stöku skúrir um sunnanvert landið. Hiti 0 til 7 stig, svalast i innsveitum. 

Á þriðjudag:
Snýst í norðaustanátt með rigningu eða slyddu austast, annars þurrt. Hiti 0 til 5 stig að deginum, en sums staðar frost inn til landsins. 

Á miðvikudag:
Norðlæg átt og kólnandi veður með skúrum eða éljum. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir stífa austlæga átt og rigningu víða. Hlýnar í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert