Lögregla hafi beitt ólögmætum aðferðum

Sindri Þór Stefánsson.
Sindri Þór Stefánsson. mbl.is/Eggert

Verjendur tveggja manna sem eru ákærðir í gagnaversmálinu krefjast þess að málinu verði vísað frá dómi vegna þess að réttindi ákærða hafi ekki verið virt og að rannsakendur hafi beitt ólögmætum aðferðum til að afla sér upplýsinga við rannsóknina.

Þetta kemur fram í greinargerð verjendanna. Þar segir að lögreglan á Suðurnesjum svífist einskis til að afla sér upplýsinga um samskipti verjenda og sakborninga í málinu.

Meðal annars hafi fyrrverandi eiginkona annars verjandans verið spurð ítarlega út í samskipti verjandans og skjólstæðings hans.

Einnig er bent á það í greinargerðinni að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi haldlagt farsíma Þorgils Þorgilssonar, verjanda Sindra Þórs Stefánssonar, við skýrslutöku 17. apríl eftir að Sindri Þór fór á brott úr landi.

Frá þingfestingu í málinu.
Frá þingfestingu í málinu. mbl.is/Eggert

Í greinargerðinni er lengd gæsluvarhaldsins yfir mönnunum einnig gagnrýnd en Sindri Þór sat í um tvo og hálfan mánuð í varðhaldi en hinn sakborningurinn í um einn og hálfan mánuð. Þar af sátu þeir í einangrun fyrstu fjórar vikurnar af varðhaldinu.

Fram kemur að skýrslutökur yfir þeim hafi farið fram einu sinni í viku á þeim tíma sem þeir sátu í einangrun, eða daginn áður en krafa um framlengingu á gæsluvarðhaldi kom fram. Þess á milli hafi lögreglan ekkert skipt sér af þeim.

Í greinargerðinni segir að hinir ákærðu hafi fengið það á tilfinninguna að raunverulegt markmið gæsluvarðhaldsins hafi verið að brjóta þá niður til að fá þá til að láta af rétti sínum til að neita að tjá sig.

mbl.is